Einungis lítið brot örplasts frá snyrtivörum

Skortur er á upplýsingum um örplast í fráveitum hér á …
Skortur er á upplýsingum um örplast í fráveitum hér á landi og því þörf á að rannsaka málið og kortleggja það. Ljósmynd/Thinkstock

Einungis 0,1% af því örplasti sem finnst í umhverfinu kemur frá snyrtivörum. Þetta kemur fram í svörum Umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. 0,1% frá snyrtivörum. Spurði Silja Dögg hver staðan væri á sameiginlegri áætlun Norðurlandanna frá maí 2017 um að banna örplast í snyrtivörum? 

Í svörum Umhverfisráðuneytisins kemur fram að ekki hafi verið gerðar rannsóknir á Íslandi á magni örplasts frá snyrtivörum í umhverfinu. Það megi hins vegar reikna má með að magnið sé hlutfallslega það sama og á Norðurlöndum.

„Í Danmörku hefur verið gerð skýrsla þar sem birt er yfirlit yfir helstu uppsprettur örplasts í umhverfinu og skiptast þær sem hér segir: Dekk 60%, skófatnaður (sólar) 7,3%, skipamálning 7,1%, vegamálning 5,1% og önnur málning 4,2%. Aðrar uppsprettur eru um 17% og þar af koma 0,1% frá snyrtivörum. Rannsóknir frá Noregi og Svíþjóð sýna svipaðar niðurstöður,“ segir í svarinu. Það örplast sem berst út í umhverfið frá snyrtivörum sé því einungis brot af heildarmagni örplasts í umhverfinu. 

Vilja vekja athygli á örplastmengun

Norðurlöndin, þar með talið Ísland, hafi hins vegar líkt og mörg önnur ríki lýst því yfir í tengslum við hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2017 að þau stefni að því að banna örplast í snyrtivörum þar sem það sé meðal mengunarefna sem geta haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins. „Með viljayfirlýsingu sinni vildu ráðherrar vekja athygli á örplastmengun frá þessum vörum sem langflest fólk notar oft á degi hverjum.“ 

Þá hafi Cosmetic Europe, samtök rúmlega 4.000 fyrirtækja og félaga sem framleiða snyrti- og hreinlætisvörur,  mælst til þess við aðildarfélög og fyrirtæki að þau hætti notkun örplasts í snyrtivörum í síðasta lagi árið 2020 ef önnur efni eru fáanleg. 

Skortir upplýsingar um örplast í fráveitum

Silja Dögg spurði einnig hvort einhverjar áætlanir væru um að koma fyrir örplastsíum í skolphreinsistöðvum hérlendis og hvort að kostnaðarmat hefði farið fram þar að lútandi? 

Sagði í svörum ráðuneytisins að ekki hafi verið gerðar áætlanir um hreinsun örplasts úr skolpi á Íslandi. Áður en til slíks kæmi þyrftu að liggja fyrir upplýsingar um magn og uppruna örplasts á landinu og leiðir þess til sjávar. Verið sé að vinna slíka úttekt í Umhverfisráðuneytinu.

Ljóst sé að skortur sé á upplýsingum um örplast í fráveitum hér á landi og því þörf á að rannsaka málið og kortleggja það. Ísland hafi engu að síður tekið þátt í norrænu samstarfsverkefni með Svíþjóð og Finnlandi, þar sem öragnir í fráveitu öragnir í fráveitu í Klettagörðum og Hafnarfirði hafi verið skoðaðar. „Helstu niðurstöður voru að gróf síun á skolpi fæli í sér takmarkaða hreinsun á örögnum og að enginn munur væri á fjölda öragna í inn- og útflæði í íslenskum sýnum,“ sagði í svari Umhverfisráðuneytisins.

Í minnisblaði sem Reykjavíkurborg hafi látið taka saman 2016 um örplast í skolpi á höfuðborgarsvæðinu hafi þó komið fram að við núverandi aðstæður hreinsi fráveitukerfi höfuðborgarsvæðisins lítið sem ekkert af örplasti úr skolpi. Fullkomnar hreinsistöðvar myndu hins vegar ná að hreinsa úr skolpi langstærstan hluta þess örplasts sem þangað berst. Í dag séu einkum tvær aðferðir notaðar til að hreinsa örplast úr skolpi, en það eru settjarnir eða síukerfi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert