Engar ábendingar um tölvubúnaðinn

Gagnaver Advania í Reykjanesbæ þar sem hluta búnaðarins var stolið.
Gagnaver Advania í Reykjanesbæ þar sem hluta búnaðarins var stolið. vb.is/Hilmar Bragi

Engar gagnlegar ábendingar hafa komið fram varðandi tölvubúnað sem stolið var úr gagnaveri á Suðurnesjum fyrr á árinu, en eigendur búnaðarins hétu 6 milljónum íslenskra króna til þess sem gat veitt áreiðanlegar upplýsingar um hvar búnaðinn væri að finna. Framlengdur frestur til að koma með ábendingu rennur út í dag, 2. maí. Lögregla er því engu nær hvar búnaðinn er að finna.

Samkvæmt frétt RÚV hefur lögreglan á Suðurnesjum, með aðstoð Ríkislögreglustjóra, hins vegar sent fyrirspurn til kínverskra lögregluyfirvalda um 600 tölvur, sérhannaðar til að framleiða Bitcoin rafmynt, sem lagt var hald á þar í landi í síðustu viku. Er um að ræða jafnmargar tölvur og var stolið úr þremur gagnverum hér á landi í desember og janúar, þar á meðal úr gagnaveri á Suðurnesjum.

Fram kemur í frétt RÚV að séu þetta sömu tölvur ætti að vera hægt að greina það á, meðal annars á raðnúmerum.

Um miðjan apríl höfðu borist á þriðja tug ábendinga um tölvubúnaðinn, en engin þeirra leiddi til þess að að búnaðurinn fannst. Var þá ákveðið að framlengja frest til að koma með ábendingar til dagsins í dag.

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu á Sogni fyrir tveimur vikum og situr nú í fangelsi í Hollandi, sætti gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðildar að málinu. Hann bíður nú eftir því að vera framseldur til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert