Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, segir að fundur nefndarinnar með Braga Guðbrandssyni, forstjóra Barnaverndarstofu, hafi verið gagnlegur. Til stóð að fundurinn yrði opinn en bréf frá lögfræðingi, seint í gærkvöldi, breytti því.
„Bragi sagði sína hlið á málinu og það er mjög gagnlegt,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is. Bragi var boðaður á fundinn eftir umfjöllun Stundarinnar fyrir helgi. Þar kom fram að Bragi hefði haft óeðlileg afskipti af máli sem var til meðferðar hjá barnavernd Hafnarfjarðar.
Upphaflega stóð til að fundurinn yrði opinn en fjölmiðlum barst tilkynning rétt eftir miðnætti um að svo yrði ekki.
„Það kom bréf frá lögfræðingi föðurafa í málinu seint í gærkvöldi. Eftir að ég hafði ráðfært mig við nefndarsvið ákvað ég að taka athugasemdir til greina,“ segir Halldóra en í bréfinu var lýst áhyggjum af því að fundurinn yrði opinn.
Halldóra segir að hugmynd fundarins hafi verið að einblína á samskipti Braga við ráðherra, tilnefningu hans til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og hvernig hann hafi farið út fyrir starfssvið sitt.
„Þar sem það er mikið af viðkvæmum upplýsingum sem liggja að baki þá vildi ég ekki taka áhættuna á því að mögulega gæti nefndarfólk óvart brotið gegn trúnaði,“ segir Halldóra.
Halldóra segir að í framhaldinu leggi hún ríka áhersla á að ráðherra aflétti trúnaði af skjölum sem mikilvæg séu fyrir umræðuna. Ef um viðkvæmar upplýsingar sé að ræða verði þær afmáðar fyrir birtingu. „Eins og ég hef sagt áður þá er fókusinn á ábyrgð ráðherra og upplýsingaskyldu hans.“