„Rétta nefndin“ fjalli um Ásmund

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, beindi því til forseta Alþingis að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, fari yfir það hvort félags- og jafnréttismálaráðherra hafi uppfyllt lagaskyldu sína gagnvart Alþingi í máli Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, og barnaverndarnefnda.

Hópur þingmanna steig í pontu í framhaldinu og lýsti yfir stuðningi við tillöguna, þar á meðal Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar sem hefur fjallað um málið, kvaðst fagna því ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki að sér málið.

Bætti hún við að Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefði átt að segja strax á fundi sínum með velferðarnefnd að Bragi hafi farið út fyrir starfssvið sitt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Golli

Loksins talað um rétta nefnd 

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem einnig situr í velferðarnefnd, fagnaði því að loksins skuli talað um rétta nefnd í málinu. Hann sagði það óeðlilegt að velferðarnefnd hafi flækst inn í trúnaðargögn úr stjórnsýslumáli.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að taka að sér málið og bætti því við að það væri „algjörlega óviðunandi“ að efni út tölvupóstum hafi verið lekið til fjölmiðla.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að birta skuli þau gögn í málinu sem ekki séu bundin trúnaði og séu geymd í svokölluðu leyniherbergi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert