„Hópferðabílstjórinn sem bakkaði á garðinn umhverfis safnlóðina svo hann féll á parti hefur haft samband og ætlar að gera við garðinn sjálfur.“ Þetta kemur fram á Facebook-síðu Byggðasafns Skagfirðinga.
Eins og greint var frá í morgun bakkaði rúta á torfvegg við Glaumbæ í Skagafirði í gær. Stórt gat myndaðist og rútubílstjórinn hvarf á braut.
Hann hafði samband við Byggðasafn Skagfirðinga í morgun og ætlar sjálfur að sjá til þess að veggurinn verði lagaður.
„Þetta er fallegt hjá honum og það er gott að þetta endar vel,“ segir Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, við mbl.is.