Hæstiréttur vísaði í dag frá máli þrotabús Háttar ehf. gegn Karli Wernerssyni. Hafði héraðsdómur áður rift peningagreiðslum frá Hátti til Karls upp á tæplega 47 milljónir frá því í júní 2009 til mars 2012. Áfrýjaði Karl málinu til Hæstaréttar sem nú vísar málinu frá. Stendur því héraðsdómurinn og þarf Karl að greiða milljónirnar til baka.
Háttur keypti árið 2007 alla hluti í Hrossaræktarbúinu Feti á 525 milljónir. Var það með láni frá Karli sjálfum og Kaupþingi (síðar Arion banka). Arion banki fór í nóvember árið 2011 fram á gjaldþrotaskipti Háttar og staðfesti Hæstiréttur það í desember sama ár.
Taldi skiptastjóri að útgreiðslur frá félaginu til Karls, sem var eini eigandi félagsins, hafi valdið kröfuhöfum tjóni þar sem minna hafi veirð til skiptanna. Ljóst væri að um þær væru Karli til hagsbóta og væri skilyrði til riftunar uppfyllt.
Í málinu var deild um hvaða dagur væri frestdagur, en skiptastjóri sagði það vera 6. Apríl 2011, meðan Karl sagði það vera 16. Janúar 2012. Hafði síðarnefnda dagsetningin verið tilgreind í innköllun í Lögbirtingablaðinu. Kvað skiptastjóri það vera misritun.
Dómari í héraði taldi forsendur fyrir því að rifta greiðslunum. Áfrýjaði Karl þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar. Áður en málið var tekið fyrir var Karl hins vegar úrskurðaður gjaldþrota og fór Háttur fram á að sett yrði trygging fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Féllst Hæstiréttur á þá kröfu en tryggingin var ekki greidd. Var málinu því vísað frá.
Þetta er ekki fyrsti dómurinn sem Karl eða félög honum tengd hafa verið dæmd til að endurgreiða háar upphæðir. Í febrúar var félagið Aurláki ehf., sem er í eigu Karls, dæmt til að greiða þrotabúi Milestone rúmar 970 milljónir vegna sölunnar á lyfjaversluninni Lyfjum og heilsu sem Milestone seldi Aurláki í mars 2008.