Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi sérstakrar umræðu um kjör ljósmæðra í dag.
Guðjón, spurði Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, „hvort við séum enn að fá staðfest að sú mismunun sem við horfum upp á sé vegna kerfislægs kynjamisréttis? Það er raunalegt að upplifa þetta hróplega óréttlæti þegar horft er til samanburðarhópa úr háskólasamfélaginu. Myndi það kannski liðka fyrir lausn að þær skiptu um nafn og nefndu sig fæðingartæknifræðinga eða fæðingarfræðinga?“
Hann biðlaði til ráðherra að grípa inn í kjaradeilu ljósmæðra og skoraði síðan á ráðherra „að leggjast á árarnar og bregðast ekki ljósmæðrum.“
Svandís sagðist styðja ljósmæður í kjarabaráttu sinni og að ótækt væri að eins langan tíma hafi tekið að semja við ljósmæður eins og raun ber vitni.
Svandís sagði viðræðurnar ekki heyra beint undir sig þar sem þær væru á borði Fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hún sagðist þó hafa beitt sér í sambandi við samninga við sjálfstætt starfandi ljósmæður í heimaþjónustu og hefðu þeir samningar náðst, en sú starfsemi heyrir undir valdsvið heilbrigðisráðuneytið.
Svandís sagði það ekki á dagskrá að ráðherrar grípi inn í kjaradeilu ljósmæðra og að samninganefnd ríkisins hefðu fullt umboð til þess að semja innan þeirrar launastefnu sem fyrir liggur. Hún bætti því þó við að það væri hennar afstaða að „þegar hnúturinn er orðinn svo harður eins og raun ber vitni hér þá þarf að hugsa út fyrir boxið.“
Heilbrigðisráðherra sagði ábyrgð stjórnvalda mikla í sambandi við launakjör kvennastétta og sagði verkalýðshreyfinguna þurfa að leggjast á árar með stjórnvöldum sem og atvinnulífið til þess að skapa sátt um launakjör stórra kvennastétta.