Netsamfélag safnaði fyrir íslenska krikketlandsliðið

Íslenskir krikketspilarar á Víðistaðatúni í Hafnarfirði.
Íslenskir krikketspilarar á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Ljósmynd/Jón Svavarsson

Samfélag áhugamanna um krikket á vefsíðunni Reddit hefur safnað 3.000 pundum fyrir íslenska landsliðið í krikket sem spilar sinn fyrsta landsleik gegn Sviss í Bretlandi í júlí.

Samfélagið, sem kallast r/Cricket, er þar með orðið opinber styrktaraðili íslenska landsliðsins og fyrirhugaðra ferðalaga þess til Bretlands næstu tvö árin.

Fram kemur á vef BBC að íslenska krikketlandsliðið vonist til að feta í fótspor íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem komst í lokakeppni EM og sló England út í 16-liða úrslitum.

Alls söfnuðu 225 manns pundunum 3.000, eða rúmum 300 þúsund krónum.  

Kit Harris, sem er í stjórn Krikketsambands Íslands, hóf söfnunina á síðunni Justgiving.com fyrir hönd landsliðsins. Einn af um 70 þúsund meðlimum r/Cricket á Reddit hafði í framhaldinu samband við Harris um að félagið styrkti íslenska landsliðið.

 „Við höfum gert ótrúlegan hlut, þökk sé örlátu fólki sem lét fé af hendi rakna til þessarar söfnunar,“ sögðu meðlimir r/Cricket. „Núna tekur við svolítið skemmtilegt þegar við við fáum að ákveða hvaða texta við viljum hafa á treyjunum þeirra.“

Fram kemur á vef BBC að tvö krikketfélög séu starfrækt á Íslandi, eða Reykjavík Vikings og Kópavogur Puffins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert