Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag pólskan karlmann, Jerzy Arkadiusz Ambrozy, í sex og hálfs árs fangelsi fyrir innflutning á 11,5 lítrum af amfetamínbasa sem var ætlaður til söludreifingar hér á landi.
Annar maður, sem einnig er pólskur, var hins vegar sýknaður af ákæru héraðssaksóknara.
Amfetamínbasinn var fluttur frá Póllandi til Íslands í 23 hálfs lítra plastflöskum sem faldar höfðu verið í bensíntanki Citroen C5-bifreiðar, en bíllinn kom til landsins með Norrænu í október í fyrra. Það voru tollverðir á Seyðisfirði sem fundu fíkniefnin við tollskoðun á Seyðisfirði.
Hafa mennirnir báðir setið í gæsluvarðhaldi frá því 4. október í fyrra.
Mönnunum var gefið að sök að hafa staðið saman að innflutningi amfetamínbasans í gróðaskyni. Í niðurstöðu dómsins segir hins vegar að maðurinn sem var sýknaður hafi ekkert vitað um raunverulegan tilgang ferðarinnar og eins sé ósannað að hann hefði mátt vita af fíkniefnunum.
Framburður Jerzy Arkadiusz er hins vegar ótrúverðugur um margt. Sú staðreynd að hann hafi alltaf séð um að dæla eldsneyti á bílinn á leiðinni frá Póllandi þyki m.a. benda til þess að það hafi hann gert vegna vitneskju sinnar um það sem falið var í bensíntankinum. Þá verði ekki annað ráðið af SMS-sendingunum sem raktar voru en að hann hafi á ferðalagi sínu hingað til lands og eftir komuna til landsins verið í sambandi við aðila sem fylgdust með ferð hans hingað og að þeir hafi báðir vitað hvað var falið var í bensíntankinum.
Arkadiusz hefur ekki áður gerst brotlegur við lög og telst gæsluvarðhaldið sem hann hefur sætt frá því í október sl. til frádráttar dómnum. Bæði fíkniefnin og bíllinn voru þá gerð upptæk og Arkadiusz gert að greiða tæpar tvær milljónir króna vegna útlagðs sakarkostnaðar.