Sigmundur sýknaður af kröfum Guðmundar

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hæstiréttur sýknaði í dag Sigmund Erni Rúnarsson, ritstjóra Hringbrautar, í meiðyrðamáli sem Guðmundur Spartakus Ómarsson höfðaði gegn honum vegna ummæla sem birtust í frétt á vefmiðlinum Hringbraut í janúar 2016. Hæstiréttur staðfestir þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu frá því í apríl á síðasta ári. Guðmundur þarf að greiða Sigmundi 700 þúsund krónur í málskostnað.

Um var að ræða níu ummæli sem Guðmundur krafðist ómerkingar á, en hann krafðist jafnframt miskabóta af hálfu Sigmundar Ernis vegna þeirra.

Í fréttinni er því lýst að fjölmiðlar í Paragvæ haldi því fram að Íslendingur sé hátt settur innan eiturlyfjahrings í Suður-Ameríku og að RÚV hafi greint frá þessu. Samkvæmt frétt RÚV telji lögreglan í Brasilíu að Íslendingurinn smygli eiturlyfjum milli Evrópu og Suður-Ameríku. Hann sigli undir fölsku vegabréfsflaggi og þykist vera þýskur fasteignasali. Í fréttinni er síðan tiltekið að Guðmundur Spartakus Ómarsson sé hinn grunaði Íslendingur.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í umræddri frétt hefði þrívegis verið tekið fram berum orðum að hún væri um tiltekin atriði reist á fréttaflutningi RÚV og í eitt skipti hefði verið vísað til annars innlends fjölmiðils, en þar að auki tvisvar til erlendra fjölmiðla. Þess utan væri ljóst af orðalagi í fréttinni að gengið hefði verið út frá því að efni hennar hefði að öðru leyti verið byggt á sömu heimildum. Efnið hafi því verið sett fram sem frétt um fréttaflutning annarra tiltekinna fjölmiðla.

Í dómnum segir að engin ástæða sé til að draga í efa Sigmundur hafi verið í góðri trú um að þeir fjölmiðlar hefðu við gerð frétta sinna gætt grundvallarreglna sem fjölmiðlum ber að virða. Var Sigmundur því sýknaður af kröfum Guðmundar.

Guðmundur höfðaði einnig meiðyrðamál gegn RÚV, þremur núverandi og fyrrverandi fréttamönnum RÚV sem og útvarpsstjóra, en í sept­em­ber í fyrra var greint frá því að RÚV hefði samið við Guðmund um að greiða honum 2,5 milljónir í bætur vegna um­fjöll­un­ar sinn­ar um málið.

Þá höfðaði Guðmundur mál gegn Atla Má Gylfasyni, fyrrverandi blaðamanni Stundarinnar, en hann fjallaði ítarlega um málefni Guðmundar í lok árs 2016 og tengdi hann meðal annars við hvarf Friðriks Kristjáns­son­ar árið 2013. Málið er nú tekið fyrir í Héraðsdómi Reykajvíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert