Aðgerðaráætlun um fækkun sjálfsvíga

Tíðni sjálfsvíga hérlendis er lægst á meðal unglinga en svipuð …
Tíðni sjálfsvíga hérlendis er lægst á meðal unglinga en svipuð öll fullorðinsárin. mbl.is/Golli

Nýjar tillögur að aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi voru kynnt fyrir heilbrigðisráðherra á fundi í velferðarráðuneytinu í gær. Starfshópur sem skipaður var af embætti landlæknis í september á síðasta ári á grundvelli þingsályktunar um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára vann að tillögunum.

Í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu segir að starfshópurinn hafi haft það hlutverk að fara yfir gagnreyndar aðferðir til að fækka sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum ungmenna og velja leiðir til þess að innleiða hér á landi.

Tíðni sjálfsvíga hérlendis er lægst á meðal unglinga en svipuð öll fullorðinsárin og því beindi hópurinn sjónum sínum að æviskeiðinu í heild. Mat hópsins er að mikilvægt sé að koma á fót föstum vettvangi fyrir uppbyggingu þekkingar og þróunar úrræða og að nýta beri þá umfangsmiklu vinnu sem þegar hefur farið fram hér á landi til að efla geðheilsu og geðheilbrigðisþjónustu.

Aðgerðaráætlunin er viðamikil og tillögur hans til stjórnvalda snúa að eflingu geðheilsu og seiglu í samfélaginu, gæðaþjónustu á sviði geðheilbrigðismála, takmörkun á aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum, aðgerðum til að draga úr áhættu meðal sérstakra áhættuhópa, stuðningi við eftirlifendur og eflingu þekkingar á sviði sjálfsvíga og sjálfsvígsforvarna.

Aðgerðaráætlunin verður kynnt á málþingi geðssviðs Landspítala um sjálfsvígforvarnir sem fram fer í Súlnasal Hótel Sögu í dag, 4. maí, á milli kl. 13 og 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert