Götur saltaðar að sumri

Snjóað hefur í Reykjavík undanfarna daga.
Snjóað hefur í Reykjavík undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undanfarna tvo morgna hafa götur í Reykjavík verið saltaðar vegna snjóþekju á götum og þrátt fyrir að komið sé fram í maí er lögreglan ekki farin að sekta bílstjóra fyrir að aka á vetrardekkjum. Veðurstofan spáir köldu veðri fram yfir helgi en þá tekur lægðagangur við en heldur hlýnandi. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem voru snemma á ferð í morgun þurftu að skafa af bílum sínum þannig að það er eins gott að skafan sé enn í bílnum. 

Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það sé ekkert nýtt að kalt sé í veðri í byrjun maí á Íslandi en oft hafi það verið í norðanátt sem hafi þýtt þurrt, sólríkt en kalt veður á Suður- og Vesturlandi en snjókomur fyrir norðan og austan. Nú blási aftur á móti að úr suðaustri og suðvestan sem hefur þau áhrif að úrkoman er sunnan- og vestanlands.

Lóurnar eru byrjaðar að koma til landsins og mætir þeim …
Lóurnar eru byrjaðar að koma til landsins og mætir þeim hvít jörð víða á landinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í dag og fram á sunnudag er útlit fyrir stífa suðvestanátt með éljum og fremur köldu veðri, en bjart norðaustantil á landinu. Hálka og snjóþekja getur myndast á vegum, einkum meðan sólar nýtur ekki við.

Suðvestan 13-18 m/s og él, sum þeirra jafnvel dimm, en suðvestan 8-13 norðaustan- og austanlands fram á kvöld og léttskýjað. Hiti yfirleitt 2 til 7 stig að deginum. 
Áframhaldandi útsynningur til og með sunnudags en á mánudag dregur til tíðinda. Þá er útlit fyrir lægð komi að landinu úr suðri og snýst þá í suðaustanstrekking með rigninu og heldur hlýnandi veðri, en áfram þurrt fyrir norðan,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðvestan 13-18 m/s og él, en léttskýjað norðaustan- og austanlands og heldur hægari þar fram á kvöld. 

Suðvestan 10-15 um sunnan- og austanvert landið á morgun en hægari vestan átt vestanlands. Dregur úr éljagangi annað kvöld en áfram bjart norðaustantil. 
Hiti 1 til 8 stig að deginum, hlýjast á Austurlandi.

Á laugardag:

Suðvestan og vestan 8-13 m/s, en 13-18 um sunnanvert landið um kvöldið. Víða él, en þurrt og bjart um landið norðaustanlands. Hiti 2 til 7 stig að deginum. 

Á sunnudag:
Suðvestan 13-18 og él, en bjartviðri á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti breytist lítið. 

Á mánudag:
Vaxandi suðaustan átt og þykknar upp, suðaustan 8-15 og rigning um kvöldið, og úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 4 til 10 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á þriðjudag:
Breytileg átt 3-8, en norðaustan 10-15 á Vestfjörðum. Skúrir um sunannvert landið en rigning eða súld norðantil. Hiti 1 til 9 stig, kaldast norðvestantil. 

Á miðvikudag:
Útlit norðaustan 10-15 m/s og slyddu með köflum um landið norðvestanvert en hægari og breytileg átt annarsstaðar. Stöku skúrir suðvestantil en þurrt og bjart austanlands. Hiti breytist lítið. 

Á fimmtudag (uppstigningardagur):
Austlæg átt og rigning, en skýjað og þurrt norðvestantil. Hiti 4 til 10 stig, hlýjast á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert