Sindri Þór Stefánsson lýsir því í viðtali við New York Times í dag hvernig hann hafi strax séð eftir flóttanum til Svíþjóðar þegar hann sá mynd af sér í öllum fjölmiðlum. Sindri situr í gæsluvarðhaldi í Amsterdam en hann strauk af Sogni aðfararnótt 17. apríl.
Í umfjöllun NYT kemur fram að yfir fjórir mánuðir séu liðnir síðan tölvubúnaði, sem er metinn á um 200 milljónir króna, var stolið. Hann er afar sérhæfður og hannaður til að grafa eftir rafmyntum á borð við Bitcoin. Þetta er eitt stærsta þjófnaðarmál sögunnar hér á landi og hétu eigendur búnaðarins þeim sex milljónum króna í fundarlaun sem gæti veitt upplýsingar um málið.
Sindri Þór sat í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að þjófnaðinum en hann hefur ítrekað verið dæmdur fyrir fíkniefnabrot sem og innbrot. Samkvæmt NYT hafa fjölmiðlar sagt hann höfuðpaurinn á bak við þjófnaðinn og það skýrist af því að honum hafi verið haldið lengur en öðrum þeim sem hafa verið yfirheyrðir í tengslum við málið.
„En síðan, líkt og tölvurnar, hvarf herra Stefánsson. Næstu fimm daga var hann á alþjóðlegum lista yfir fólk á flótta undan réttvísinni,“ segir í umfjöllun NYT.
Þar er því lýst hversu auðveldur flóttinn hafi verið og að Sindri hafi tekið leigubíl á flugvöllinn og flogið með morgunflugi til Stokkhólms líkt og forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir.
„Við tölum ekkert saman,“ segir Sindri í símaviðtali við NYT úr fangelsi fyrir utan Amsterdam. Um fyrsta viðtalið sé að ræða sem hann veitir frá því hann var handtekinn í Amsterdam fyrir tveimur vikum síðan. Sindri segist hafa verið með derhúfu og forðast augnsamband við fólk um borð í flugvélinni.
Sindri vildi ekki ræða við blaðamann NYT um þjófnaðinn heldur miklu frekar vildi hann ræða hversu mikið hann sæi eftir flóttanum. Hann hafi ekki borðað og verið með stöðugan hnút í maganum yfir því að hafa lagt þetta á fjölskyldu sína. Eins hafi hann verið hræddur um að þekkjast.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfestir við NYT áhuga Íslendinga á málinu. „Ég sit hér í heitum potti í sundlaugunum og vinir og félagar spyrja hvort ég hafi fundið hann?“
Í New York Times er lýst aðbúnaði fanga að Sogni. Það sé opið fangelsi þar sem fangar hafi sérherbergi með flatskjáum. Þeir séu með snjallsíma og megi nota þá að vild. Á daginn annist þeir eldamennsku og fleira og fái greitt fyrir.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, segir andrúmsloftið vinalegt á Sogni og fangar séu í góðu sambandi við fangaverði. Aldrei komi til slagsmála eða rifrilda þar en Guðmundur Ingi hefur sjálfur afplánað á Sogni.
Blaðamaðurinn segir að fangelsið minni frekar á sveitabæ heldur en fangelsi en hann heimsótti Sogn fyrir skemmstu.
Sindri segir í viðtalinu að hann hafi farið að leita að flugi um klukkan 23 um kvöldið. Eftir að hafa bókað flug undir fölsku nafni, opnaði hann gluggann og lét sig hverfa. Að hans sögn rölti hann áleiðis eftir þjóðveginum og síðan farið á puttanum til Keflavíkur. Þar hringdi hann á leigubíl. Lögreglan segir aftur á móti að vitorðsmaður Sindra hafi keyrt hann til Keflavíkur.
Þegar hann kom til Stokkhólms fór hann með lest, leigubíl og ferju til Þýskalands með viðkomu í Danmörku. Þar hitti hann fólk sem keyrði hann til Amsterdam og að eigin sögn var hann aðeins frjáls þar í þrjár klukkustundir. Þar tóku nefnilega vegfarendur eftir honum og sendu lögreglu mynd af honum. Lögreglan var fljót að koma á staðinn og handtaka hann. „Ég var bara á göngu þegar það gerðist,“ segir Sindri í viðtalinu.
Þar er haft eftir Sindra að hann hafi verið edrú í meira en sjö ár og vinni við að búa til smáforrit og vefsíður. Hann vill lítið gera úr því að hafa nýverið handtekinn fyrir framleiðslu á maríjúana og segir að það sé bara hliðarverkefni.
Þegar hann var handtekinn stóð til að hann færi úr landi eftir tvo daga ásamt eiginkonu og þremur börnum. Þau ætluðu að flytja til Spánar og hefja nýtt líf.
New York Times segir síðan í lok greinarinnar að sama hverslu þversagnarkennt það kunni að hljóma þá þrái Sindri ekkert frekar en að komast þangað sem hann vildi ólmur flýja frá. Í fangelsinu í Hollandi sé hann aðeins nafn og númer, hungraður og á verði gagnvart öðrum föngum. Til samanburðar segir hann: „Íslensk fangelsi eru eins og hótel.“