Stjórn tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar fjölmiðla þess efnis að laun forstjóra fyrirtækisins hafi hækkað um 20% eftir tvo mánuði í starfi.
Í yfirlýsingunni segir að samið hafi verið um ráðningu Svanhildar Konráðsdóttir í byrjun janúar 2017 og samkvæmt samningnum áttu laun forstjóra vera 1,5 milljónir króna á mánuði. Vegna breytinga á kjarasamningi VR séu launin nú 1.567.500 kr.
Þá segir að hinn 30. desember 2016 hafi ný lög verið samþykkt á Alþingi sem kváðu á um að frá 1. júlí 2017 skyldu laun forstjóra ríkisfyrirtækja ákvörðuð af stjórnum þeirra en ekki af kjararáði. Eftir að samið hafði verið um laun við nýjan forstjóra barst úrskurður kjararáðs um að laun forstjóra skyldu vera 1.308.736 kr. Því hafi forstjóri samþykkt launalækkun upp á 191.264 kr. fyrstu tvo mánuðina í starfi, en samningurinn gilti svo frá 1. júlí 2017. Umsamin laun séu því 14,6% hærri en niðurstaða kjararáðs.