Sindri „hættur að botna í þessu kerfi“

Sindri furðar sig á því að auglýst hafi verið eftir …
Sindri furðar sig á því að auglýst hafi verið eftir honum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu á Sogni um miðjan apríl, og flúði land kjölfarið, spyr af hverju það hafi verið auglýst eftir honum og handtökuskipun gefin út, fyrst honum hafi verið sleppt þegar hann loks kom aftur heim til Íslands. Sindri birti yfirlýsingu á á Facebook-síðu konu sinnar fyrr í kvöld, en RÚV greindi frá yfirlýsingunni.

Segist hann hafa farið frjáls ferða sinna frá Sogni til Svíþjóðar, en hafi engu að síður fengið stimpilinn „strokufangi“ og öll þjóðin hafi fengið vitneskju um fortíð hans.

Hann lýsir síðan atburðarásinni sem hefur átt sér stað síðan hann var handtekinn í Hollandi fyrir tæpum tveimur vikum.

„Ég var síðan handtekinn í Amsterdam og dæmdur í gæsluvarðhald, sem endaði í 11 daga einangrun. Í dag komu þrír lögreglumenn að sækja mig til Amsterdam til að flytja mig til Íslands. Tveir af þeim voru sérsveitarmenn. Ég var fluttur í handjárnum og belti í almenningsflugi Icelandair með fyrrnefnda lögreglumenn mér við hlið. Kom svo fyrir dómara í Reykjanesbæ þar sem mér er sleppt út en með farbanni.“

Segist Sindri „vera hættur að botna í þessu kerfi“, en honum þyki þó gott að vera kominn heim. Yfirlýsingunni lýkur á broskalli.

Sindri kom til landsins síðdegis í dag og var strax fluttur í Héraðsdóm Reykjaness þar sem hann var úrskurðaður í mánaðar farbann. Ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert