Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu á Sogni í síðasta mánuði, kom til landsins nú síðdegis. Hann var í kjölfarið fluttur í héraðsdóm Reykjaness nú á fimmta tímanum.
Þar var hann úrskurðaður eins mánaðar farbann að því er greint er frá á fréttavef RÚV. Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum hafði ekki fengið upplýsingar um úrskurð dómstólsins er mbl.is náði sambandi við hann. Hann segir eins mánaðar farbanns úrskurð hins vegar vera í samræmi við kröfu lögreglunnar, en lögregla krafðist ekki gæsluvarðhalds yfir Sindra Þór að þessu sinni.
Ekki er enn búið að gefa út ákæru í málinu á hendur Sindra Þór varðar þjófnað á 600 tölvum úr þremur gagnaverum í janúar og febrúar, en tölvurnar eru enn ófundnar.
Sindri Þór hefur undanfarna daga setið í fangelsi í Amsterdam í Hollandi og beið þess að verða framseldur til Íslands.
Vitað var að hugsanlega yrði farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum við komuna til landsins, en hann hafði setið í gæsluvarðhaldi í tíu vikur þegar hann strauk. Þá hafði verið farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum, en dómari tók sér sólahrings umhugsunarfrest. Sindri strauk áður en ákvörðun hafði verið tekin um varðhaldið, en hann taldi sig vera frjáls ferða sinna. Honum hafði þó verið tjáð að hann yrði handtekinn yfirgæfi hann fangelsið.
Sindri komst með flugi til Svíþjóðar og þaðan til Amsterdam í Hollandi þar sem hann var handtekinn nokkrum dögum síðar, í kjölfar ábendingar frá vegfaranda. Þá hafði verið gefin út aljóðleg handtökuskipun á hendur honum.
Fréttin hefur verið uppfærð.