Draga má verulega úr fjölmörgum fylgikvillum krabbameina og meðferða með endurhæfingu sem hjálpar einstaklingum að takast betur á við daglegt líf, stunda atvinnu og búa við betri lífsgæði.
Þetta kom fram á málþinginu Endurhæfing alla leið sem var haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands.
Skorað var á heilbrigðisyfirvöld að leggja fram stefnumótun og fjármagnaða aðgerðaráætlun varðandi endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein á Íslandi, að því er kemur fram í tilkynningu.
Að málþinginu stóðu Endurhæfingarteymi fyrir krabbameinsgreinda á Landspítala, Krabbameinsfélag Íslands, Ljósið, Kraftur, Heilsustofnun NLFÍ og Reykjalundur.
„Margvíslegir fylgikvillar fylgja sjúkdómnum og meðferðum honum tengdum, bæði af sálrænum, líkamlegum, félagslegum og tilvistarlegum toga. Rannsóknir sýna að fjölþætt endurhæfing getur dregið úr þessum fylgikvillum og hjálpað einstaklingnum að takast betur á við daglegt líf, stunda atvinnu og búa við betri lífsgæði,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur einnig fram að það hafi verið misjafnt og tilviljunarkennt hverjir fá markvissa endurhæfingarþjónustu og hvenær í ferlinu hún er veitt.
Ástæður þess eru meðal annars sagðar vöntun skýrrar stefnumótunar og framkvæmdaráætlunar frá heilbrigðisyfirvöldum um málefnið, skortur á samstarfi milli þjónustuaðila, skortur á sérhæfðu fagfólki á öllum þjónustustigum og skortur á fjármagni til málaflokksins.
„Það má sannarlega segja að brotið hafi verið blað í sögu endurhæfingar krabbameinsgreindra á Íslandi þegar þessi félög og stofnanir sem koma að málefninu sameinuðust í fyrsta sinn,“ segir Ágústa Kristín Andersen, hjúkrunarfræðingur á Landspítala og einn skipuleggjenda ráðstefnunnar, í tilkynningunni.
„Þetta er fyrsta skrefið sem stigið er í átt til samræmingar verklags með nýjustu vitneskju um árangursríkar aðferðir að leiðarljósi. Með samvinnu getum við bætt utanumhald, eflt úrræði og styrkt þær stoðir sem fyrir eru.“
Á málþinginu kom fram mikilvægi þess að litið sé á endurhæfingu sem sjálfsagðan hluta af meðferð fólks sem greinist með krabbamein, í gegnum allt sjúkdómsferlið, hvort sem um lækningu eða líkn er að ræða. „Sameiginlegur skilningur á því hvað felst í endurhæfingu skiptir miklu máli og hvaða árangri hún skilar til einstaklingsins, aðstandenda hans og til samfélagsins alls,“ segir Ágústa.
Samkvæmt upplýsingum úr Krabbameinsskrá Íslands greinast nú árlega rúmlega 1500 manns með krabbamein og sífellt fleiri eru á lífi eftir greiningu sjúkdómsins.
Fimm ára lífshorfur hafa meira en tvöfaldast frá upphafi skráninga á Íslandi og dánartíðni hefur lækkað frá árinu 2000.
Í árslok 2016 var 14.491 einstaklingur á lífi sem greinst hafði með krabbamein. Spáð er um 30% aukningu nýgreininga á næstu 15 árum sem skýrist fyrst og fremst af hækkandi aldri og fjölgun íbúa. Þeim einstaklingum mun því fjölga stöðugt sem greinast, læknast og lifa í mörg ár með krabbamein sem langvinnan sjúkdóm, að því er segir í tilkynningunni.