„Því er ekkert að leyna að þetta er auðvitað óánægja með meirihluta Sjálfstæðisflokksins sem hefur rekið langt frá því sem við teljum vera inntak sjálfstæðisstefnunnar,“ segir Skafti Harðarson, oddviti F-listans á Seltjarnarnesi, í samtali við mbl.is.
Skafti segir að óánægja meðal bæjarbúa vegna starfa meirihlutans í sveitarfélaginu stafa af mörgum málum og hefur verið að gerjast í lengri tíma, en Skafti lýsti ástæðum fyrir framboðinu í Facebook færslu í gær.
Hann segir meðal annars við mbl.is að „2010 var gefið loforð um að hækka ekki skatta eins og vinstristjórnin var að gera bæði bak og fyrir, það var svikið rúmu ári síðar. Útsvarið var hækkað um 7% í kreppu. Þá væri betra að hafa tekið lán í stað þess að hækka skatta til þess að skerða ekki frekar tekjur þeirra sem eru að takast á við þessa kreppu.“
Oddvitinn setur spurningamerki við skynsemi þess að taka lán á toppi hagsveiflunnar og segir það vera vegna eyðslusemi meirihlutans. „Þetta er bara eitt fjölda atriða. Nú er allt í blóma og bærinn rekinn með tapi, sem hefur ekki verið á Seltjarnarnesi. Keypt hefur verið gamalt hús á 100 milljónir til þess að fara að reka þar kaffihús með óskilgreindum öðrum hliðarráðstöfunum. Byggt áhaldahús án heimilda byggingafulltrúa eða fjárheimilda og svo framvegis,“ segir hann.
Samkvæmt Skafta eru meginatriði framboðsins ráðdeild og verja grunnþjónustuna, „því við ætlum ekki að fara sömu leið og Reykjavík að láta krútt- og kruðerístefnu og umframeyðslu koma niður á grunnþjónustunni eins og skóla, leikskóla og umhverfi.“ Hann segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi við sjónarmið framboðsins meðal bæjarbúa
F-listinn á Seltjarnarnesi vill í raun afturhvarf til þeirra tíma þegar sveitarfélagið var á margan hátt til fyrirmyndar í rekstri, virðing fyrir peningum skattgreiðenda var í fyrirrúmi og ábyrgð gagnvart fjármálum bæjarins, að sögn Skafta.
Hann segist finna fyrir miklum vonbrigðum að þurfa að grípa til þess að bjóða fram lista gegn Sjálfstæðisflokknum. „Ég hef verið flokksbundinn sjálfstæðismaður til 40 ára og hef svo sem aldrei kosið neitt annað en Sjálfstæðisflokkinn og held ég get fullyrt að mikill meirihluti þeirra sem eru á listanum séu flokksbundnir sjálfstæðismenn.“