Lausn deilunnar ekki í sjónmáli

Ljósmæður mótmæla fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara.
Ljósmæður mótmæla fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert

„Staðan er þung. Á síðasta fundi bar mikið í milli og það er ekki alveg í sjónmáli hvernig eigi að leysa þessa deilu,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari um kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins.

Níundi fundurinn í dag

Næsti samningafundur verður haldinn í dag klukkan 15. Málinu var vísað til ríkissáttasemjara 5. febrúar síðastliðinn og er fundurinn í dag er sá níundi í röðinni.  

Bryndís segist binda vonir við að deiluaðilar mæti til fundarins með einhverjar hugmyndir um hvernig þeir geti nálgast hvor annan. „Verkefnið er ennþá á borðinu og það fer ekki neitt en við sjáum hvernig fer í dag,“ segir hún.

Ef ekkert nýtt verður í stöðunni að loknum fundinum í dag verður nýr fundur boðaður innan tveggja vikna.

Staðan sífellt alvarlegri 

Ljósmæður á meðgöngu- og fæðingardeild Landspítala hafa sagt upp störfum hver á fætur annarri og þar verður ástandið því sífellt erfiðara.

„Staðan verður alvarlegri eftir því sem tíminn líður og þess vegna veltur mikið á því að samninganefndir beggja aðila reyni að finna fleti til þess að nálgast hvor aðra. Það hefur ekki gengið alltof vel en þessar deilur leysast sem betur fer flestar,“ segir Bryndís.

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert