Brottvísun af heimili og nálgunarbann fyrir ítrekað ofbeldi

Manninum hefur verið vísað af heimili sínu og gert að …
Manninum hefur verið vísað af heimili sínu og gert að sæta nálgunarbanni vegna ítrekaðs meints ofbeldis gegn eiginkonu sinni undanfarinn áratug. mbl.is/G.Rúnar

Landsréttur staðfesti fyrir helgi úrskurð héraðsdóms og ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vísa manni af heimili sínu og láta hann sæta nálgunarbanni gagnvart eiginkonu sinni. Kemur fram í úrskurðinum að maðurinn sé grunaður um að hafa beitt konuna langvarandi ofbeldi, líkamlegu og kynferðislegu.

Maðurinn og konan kynntust fyrir um áratug síðan og fluttist konan nokkrum árum síðar hingað til lands. Í apríl kom konan ásamt manninum á lögreglustöð og lýsti þar ítrekuðu heimilisofbeldi af hálfu mannsins og var hann handtekinn í kjölfarið.

Við skýrslutöku sagði hún manninn hafa beitt sig ofbeldi frá því nokkrum mánuðum eftir að hún fluttist til landsins fyrir tæplega áratug síðan. Það hafi verið  andlegt, líkamleg og kynferðislegt. „Hafi hann ítrekað hótað henni lífláti, nánast daglega beitt hana líkamlegu ofbeldi þar sem hann hafi m.a. veist að andliti og líkama með höggum og spörkum og auk þess beitt hana nánast daglegu kynferðislegu ofbeldi,“ segir í úrskurðinum. Hafi hann meðal annars neytt hana ítrekað til kynferðismaka.

Lýsti konan einnig því að maðurinn hafi tekið hana kverkataki og þrengt þannig að öndunarvegi hennar að hún missti meðvitund.

Maðurinn hafi einnig látið hana stofna bankareikning sem öll laun hennar voru lögð inn á, en einungis hann hafði aðgang að. Samstarfsmaður konunnar hefur sagt við rannsókn málsins að maðurinn hafi komið mjög illa fram við konuna í vinnunni, haft yfirráð yfir fjármunum hennar og þá hafi hún komið marin til vinnu.

Maðurinn neitar sök, en segist eiga það til að slá frá sér þegar hann sé sofandi.

Tekið er fram að málið sé mikið umfangs og meint brot mannsins séu langvarandi og í fjölmörgum tilvikum yfir margra ára skeið.

Taldi lögreglustjórinn að uppfyllt væru skilyrði fyrir brottvísun af heimili og nálgunarbanni, meðal annars þar sem maðurinn liggi undir rökstuddum grun um að hafa beitt konuna því ofbeldi sem nefnt er að ofan á heimili þeirra. Sé talin hætta á að hann muni gera slíkt aftur og að vernda þurfi friðhelgi konunnar með þessu úrræði.

Bæði héraðsdómur og Landsréttur taka undir mat lögreglustjórans og þarf maðurinn að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili til 22. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert