Hulda Steinunn Valtýsdóttir, fyrrverandi blaðamaður, þýðandi og borgarfulltrúi, lést sl. sunnudag á 93. aldursári.
Hulda fæddist 29. september 1925, dóttir hjónanna Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Kristínar Jónsdóttur listmálara.
Hulda lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1945. Hún hóf snemma að starfa hjá Morgunblaðinu og sagði m.a. í viðtali við blaðið að hún hefði byrjað að sendast í afgreiðslunni í Austurstræti 10 eða 12 ára gömul. Hún vann sem ritari föður síns í ritstjórastóli og síðar sem blaðamaður. Hulda skrifaði fyrir Lesbók Morgunblaðsins auk þess að rita fasta pistla í blaðið, þar sem umhverfis- og menningarmál voru henni hugleikin. Frá 1989 til 2005 sat Hulda í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, og var varaformaður stjórnar frá 1989 til 1995.
Hulda vann við þýðingar og þýddi barnasögur og leikrit, m.a. sögurnar um Bangsímon eftir A.A. Milne og leikritin Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og Karíus og Baktus eftir Thorbjørn Egner, auk fleiri sígildra verka sem Helga systir hennar leikkona las svo ógleymanlega í útvarpi. Barnatími þeirra Helgu og Huldu varð mjög vinsæll og var á dagskrá Ríkisútvarpsins um árabil og leikverk Thorbjørns Egners hafa lifað með þjóðinni frá því Þjóðleikhúsið setti þau fyrst á svið.
Hulda sat í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1982 til 1986 og var varaborgarfulltrúi frá 1986 til 1990. Hún var formaður umhverfismálaráðs og fyrsti formaður menningarmálanefndar Reykjavíkur.
Hulda hafði alla tíð mikinn áhuga á skógrækt og var formaður Skógræktarfélags Íslands frá 1981 til 1999. Þá var hún formaður framkvæmdanefndar um landgræðsluskógaátakið Ár trésins, sat í stjórn Landgræðslusjóðs og í stjórn Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá. Hulda var heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hún hlaut stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að skógræktarmálum.
Eiginmaður Huldu var Gunnar Hansson arkitekt. Hann lést árið 1989. Þau eignuðust þrjár dætur, Kristínu, Helgu og Hildigunni.
Morgunblaðið þakkar Huldu við leiðarlok heilladrjúgt samstarf, stuðning og vináttu og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.