Þjónustufulltrúar sem sögðu upp í Hörpu í gær bíða spenntir eftir því að heyra hvað kemur út úr fundi Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, með stjórnarformanni Hörpu og starfsmönnum fyrir hádegi í dag.
RÚV greindi frá fundinum fyrr í morgun.
Þetta segir einn af þjónustufulltrúunum í samtali við mbl.is en fulltrúarnir 20 sem sögðu upp voru ekki boðaðir á starfsmannafundinn.
Að sögn þjónustufulltrúans eru flestir þeirra með lögbundinn þriggja mánaða uppsagnarfrest. Óljóst er hvort þeir muni vinna uppsagnafrestinn eða hvort þeim verði vísað strax frá störfum.
Að minnsta kosti einn þjónustufulltrúi átti að mæta til starfa í dag en annars eru flestir þeirra að störfum þegar nær dregur helginni.
Ekki náðist í Svanhildi Konráðsdóttur við vinnslu fréttarinnar.