Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni skrifuðu í kvöld undir kjarasamning að loknum fundi hjá ríkissáttasemjara. Samningurinn verður lagður sem fyrst undir félagsmenn. „Það er búið að semja samning og nú fer samningurinn í atkvæðagreiðslu,“ sagði Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið fyrr í kvöld.
Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslu Íslands felldu í síðustu viku kjarasamning sem skrifað var undir 18. apríl síðastliðinn. Samningurinn tekur til 18 starfsmanna og stefnt er að því að fram fari rafræn kosning um samninginn.
Boðað var til verkfalls 11. maí en því hefur verið frestað til 23. maí.