Nýr kafli í Aurum Holding-málinu

Frá aðalmeðferð málsins í annarri umferð fyrir héraðsdómi í október …
Frá aðalmeðferð málsins í annarri umferð fyrir héraðsdómi í október árið 2016. mbl.is/Árni Sæberg

Í gær fór fram undirbúningsþinghald í Landsrétti í Aurum Holding-málinu svokallaða. Stefnt er á að aðalmeðferð í málinu fari fram í september, en áður en það gerist þarf Landsréttur að taka ákvörðun um þau atriði sem tekist var á um í gær. Þau atriði sneru að rekstri málsins fyrir dómi, gagnaöflun og framlagningu gagna fyrir dómi. Landsréttur hefur hins vegar tekið þá ákvörðun að dóminn muni skipa þrír dómarar ásamt tveimur sérfróðum meðdómendum.

Þinghaldið fór fram fyrir þremur dómurum, þeim Ásmundi Helgasyni, Kristbjörgu Stephensen og Þorgeiri Inga Njálssyni. Ákærðir í málinu eru Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding og Magnús Arnar Arngrímsson. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari kom fram fyrir hönd ákæruvaldsins.

Með þinghaldinu í gær hófst enn einn kaflinn í Aurum Holding-málinu. Málið sem var upphaflega höfðað gegn áðurnefndum aðilum auk fyrrverandi viðskiptastjóra Glitnis banka hefur nú verið tekið fyrir á öllum þremur dómstigum íslensk réttarkerfis. Áður hafði málið farið í gegnum héraðsdóm þar sem hinir ákærðu voru allir sýknaðir. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem ógilti sýknudóminn vegna ummæla meðdómanda, Sverris Ólafssonar, sem bentu til óvildar hans í garð embættis sérstaks saksóknara. Sverrir er bróðir Ólafs Ólafssonar sem hefur verið ákærður af embætti sérstaks saksóknara og hlotið dóm, m.a. í Al-Thani málinu.

Héraðsdómur fékk því málið aftur til úrlausnar. Í ákæru var Jón Ásgeir ásamt fyrrverandi viðskiptastjóra Glitnis sakaður um hlutdeild í umboðssvikum Lárusar og Magnúsar Arnars en til vara fyrir hylmingu og peningaþvætti til þrautavara. Í þetta skiptið komst héraðsdómur að annarri niðurstöðu og dæmdi þá Lárus og Magnús til refsingar en Jón Ásgeir og fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis voru sýknaðir. Ríkissaksóknari áfrýjaði einungis niðurstöðu héraðsdóms um sýknu Jóns Ásgeirs en Lárus og Magnús höfðu áður gefið það út að þeir myndu áfrýja sakfellingum sínum. Eftir standa því þrír ákærðir í Aurum Holding-málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka