„Hlutverk ríkisins er að stuðla að sátt á vinnumarkaði og stöðugleiki á vinnumarkaði verður ekki settur á ábyrgð launalægstu hópanna,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.
Vísar hún í því samhengi á uppsagnir þjónustufulltrúa í Hörpu. 17 manns sögðu upp störfum í gærkvöldi, meðal annars vegna launahækkunar Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, sem greint var frá í fjölmiðlum í síðustu viku. Þjónustufulltrúar í Hörpu tóku á sig launalækkun í fyrra sem stjórnendur Hörpu sögðu vera hluta af samstilltu átaki til að rétta af fjárhag Hörpu.
Þórður Sverrisson, formaður stjórnar Hörpu, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að fréttir af launahækkun forstjórans væru falsfréttir. Laun Svanhildar hefðu ekki hækkað um 20% heldur hafi hún tekið á sig tímabundna lækkun vegna úrskurðar kjararáðs.
„Það er svo hægur vandi að rifja upp að fjármálaráðherra sendi í fyrra tilmæli til allra stjórna opinberra fyrirtækja um að fara hóflega fram í launaþróun sinna stjórnenda,“ segir Katrín og bætir við að hið opinbera eigi ekki að vera leiðandi í launaþróun, heldur fylgja launaþróun í landinu. Hún vísar til fjármálaráðuneytisins um ítarlegri svör, en þar sé framkvæmd starfskjarastefnu ríkisins að finna.
Aðspurð hvort fulltrúar ríkisins muni ítreka tilmæli fjármálaráðherra frá í fyrra við stjórn Hörpu svarar Katrín: „Ég hef rætt við fjármálaráðherra að hann ræði við stjórnir opinberra fyrirtækja um þessu mál, þar á meðal stjórn Hörpu.“
Stjórn Hörpu sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem kemur fram að stjórnendum þyki mjög leitt að sjá á eftir góðu fólki sem hafi starfað þar til lengri eða skemmri tíma en telur sig ekki eiga samleið með fyrirtækinu áfram.
Þjónustufulltrúum sem hafa sagt upp störfum hefur verið sýndur stuðningur, meðal annars frá VR og sviðs- og tæknifólki sem starfar í Hörpu. Formaður VR greindi frá því að félagið hefur ákveðið að hætta að nota Hörpu tónlistarhús undir viðburði félagsins í ljósi yfirlýsingar frá stjórn Hörpu í morgun.
Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, óskaði eftir því síðdegis að laun hennar verði lækkuð afturvirkt frá 1. janúar 2018. Þórður segir að það hafi verið drengilega gert af henni og segir hann aðalatriðið á þessu stigi málsins að skapa frið í starfsemi hússins.
„Það er afskaplega mikilvægt að núna þegar hún hefur stigið fram að við fáum aftur frið um starfsemina í húsinu og að allir haldi áfram að njóta að koma þangað,“ sagði Þórður í samtali við mbl.is fyrr í dag.