Sýknaðir vegna bílakjallara í Hörpu

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu.
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Reykjavík Development ehf. af kröfu Íslenskra aðalverktaka um skaðabætur vegna byggingar bílakjallara á lóðinni að Austurbakka 2 þar sem Harpa er til húsa.

Íslenskir aðalverktakar kröfðust skaðabóta fyrir tjón vegna brots gegn rétti fyrirtækisins til stýriverktöku samkvæmt rammasamningi stefnanda við Nýsi hf., Landsafl hf. og Eignarhaldsfélagið Portus ehf. frá 9. mars 2006 um framkvæmdir við bílakjallarann.

Í dóminum kemur fram að málið lúti eingöngu að bílakjallaranum sem þegar hefur verið byggður undir byggingareitum 1 og 2 á matshluta nr. 2.

„Af gögnum málsins verður ráðið að fyrirkomulagi lóðar og skipulagi hafi síðar verið breytt á þá leið að ekki var lengur gert ráð fyrir sameiginlegum bílakjallara fyrir allan matshluta nr. 2,“ segir í dóminum.

„Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu, dagsettri 22. apríl 2016, um byggingarreiti 1 og 2 er bílakjallari undir reitunum nú sjálfstætt hús í skilningi fjöleignarhúsalaga og tilgreindur sem einkaeign stefnda. Í máli þessu heldur stefnandi því fram, gegn mótmælum stefnda, að hann hafi átt rétt til svokallaðrar stýriverktöku samkvæmt rammasamningi 9. mars 2009, sem síðar er gerð grein fyrir, vegna byggingar umrædds bílakjallara undir byggingarreitum 1 og 2 og hafi hann orðið fyrir tjóni sökum þess að þessi réttur hans var ekki virtur.“

Fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms að ekki var talið sannað að Reykjavík Development ehf. hefði tekið á sig skyldur gagnvart Íslenskum aðalverktökum þannig að Íslenskum aðalverktökum hefði borið réttur til að sinna svonefndri stýriverktöku við byggingu bílakjallarans.  

Einnig kemur fram að í ljósi vafaatriða málsins verður málskostnaður látinn falla niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka