„Þetta er í annarra höndum núna“

Ljósmynd/Andres Putting

„Við vonumst að sjálfsögðu til þess að komast áfram í úrslitin og vonum að fólk sjái kærleikann sem Ari sendir frá sér og hrífist af því eins og við gerðum á Íslandi,“ segir Þórunn Erna Clausen, höfundur framlags Íslands í Eurovision í ár, „Our Choice“, og bakraddasöngkona Ara Ólafssonar sem stígur á svið í fyrri undanúrslitum í kvöld.

Mbl.is náði tali af Þórunni fyrir hádegi í dag þegar hópurinn var mættur í smink í Alrice Arena-höllinni í Lissabon, en fjölskyldurennsli fór fram kl. 14 í Portúgal í dag. Undankeppnin sjálf hefst svo kl. 20 í kvöld, en kl. 19 að íslenskum tíma.

Þórunn er ánægð með hvernig gekk á dómararennslinu í gærkvöldi, en álit dómaranna vegur 50% á móti atkvæðum sem áhorfendur greiða í kvöld. Hún sagði hópinn hafa fundið fyrir smávegis spennufalli eftir flutninginn. „En það var gaman að finna viðbrögðin frá áhorfendum. Við vorum mjög glöð þegar við stigum af sviðinu í gær. Þetta er það sem við erum búin að vera að vinna að og það gekk vel svo við vorum öll mjög ánægð.“

„Ari er ótrúlega heillandi og hefur stórkostlega rödd og lagið sýnir hans raddsvið gríðarlega vel. Við getum ekki annað en stigið stolt á svið með þessum unga, hugrakka dreng,“ segir Þórunn. Hún er jafnframt mjög stolt af öllum bakraddahópnum. „Það er mikill léttleiki yfir okkur öllum og það kunna allir að meta það. Þó við séum með dramatíska ballöðu þá erum við alls ekki að taka okkur of alvarlega.“

Íslenski hópurinn er mjög samheldinn.
Íslenski hópurinn er mjög samheldinn. Ljósmynd/Andres Putting

Hún segir erfitt að vera með einhverjar væntingar í riðli sem þessum. „Það er nú ekki búið að vera að spá okkur eitthvað ofarlega. Við getum bara skilað okkar frá hjartanu og séð til hvort einhverjir hrífast með. Það er erfitt að keppa í tónlist. Við erum í rauninni búin með okkar vinnu og þetta er í annarra höndum núna.“

„Við erum búin að fá mjög mikinn stuðning frá hinum keppendunum. Þetta hljómar eins og klisja en en við erum eins og ein stór fjölskylda hérna baksviðs og þekkjumst orðið mjög vel. Það var mjög áberandi í Græna herberginu í gær þegar vinir okkar voru að stíga á svið hvað það var mikill stuðningur og lítið samkeppnishugarfar.“

Þórunn segir þau líka mjög þakklátt fyrir allan þann stuðning sem berst heiman frá. „Í dag erum við búin að fá send myndbönd af krökkum í skólum á Íslandi að syngja lagið. Ég var grátandi inni í sminki við það að sjá þessar fallegu englaraddir. Það er svo fallegt að finna þetta.“

„Það er svo gott þegar við veljum það í lífinu að styðja við hvort annað. Um það snýst lagið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert