VR hefur þegar afbókað tvo viðburði sem áttu að fara fram í Hörpu á þessu ári.
Annar staður hefur verið fundinn fyrir viðburðinn Fyrirtæki ársins sem stéttarfélagið ætlaði að halda 17. maí í Hörpu. Viðburðurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica-hótelinu í staðinn.
Einnig hefur verið hætt við að halda árlegt jólaball VR í Hörpu og leit stendur yfir að öðrum stað fyrir það.
VR sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem viðbrögð forsvarsmanna Hörpu við uppsögnum þjónustufulltrúa tónlistar- og ráðstefnuhússins voru fordæmd. Fram kom að VR ætlaði að hætta viðskiptum við Hörpu „þar til þetta mál fær eðlilega afgreiðslu“.
Þrír af fjórum stærstu viðburðum VR hafa verið haldnir í Hörpu.
„Þarna er starfsfólkið að standa saman og segja upp og mætir síðan þessum fádæma hroka og yfirlæti þar sem því er bara þakkað fyrir vel unnin störf,“ segir Ragnar Þór um kjaramálin í Hörpu.
„Ég er bara svo óendanlega stoltur af þessu fólki sem tók þessa ákvörðun um að láta ekki vaða yfir sig á skítugum skónum.“
Hann bætir við að stéttarfélagið hafi viljað standa með starfsfólkinu með einhverjum hætti og þessi leið hafi verið farin. „Þetta er með auðveldari ákvörðunum sem ég hef tekið,“ segir hann aðspurður.
„Ég er ótrúlega hreykinn af staðfestu þessara starfsmanna, sem eru okkar félagsmenn.“