Ráðherrar ríkisstjórnarinnar komu saman í dag, auk formanna allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og fulltrúa ýmissa félagasamtaka, í tilefni af fullgildingu Istanbúlsamningsins. Samningurinn kveður á um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, afhenti aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins staðfestingarskjal á dögunum um fullgildingu Íslands á samningnum.
„Istanbúlsamningurinn er framsækinn samningur sem viðurkennir að ofbeldi gegn konum er kerfisbundið og á rætur sínar að rekja í ójafnri stöðu kynjanna. Það að samningurinn sé loks fullgildur hér á landi er mikið fagnaðarefni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við tilefnið.
Istanbúlsamningurinn var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag.