Persónuvernd hefur móttekið umsókn frá Reykjavíkurborg um undanþágu frá ákvæðum í persónuverndarlögum varðandi áform borgarinnar um að senda hópskilaboð á unga kjósendur í Reykjavík í þeim yfirlýsta tilgangi að auka kjörsókn í borgarstjórnarkosningunum í lok mánaðarins. Þetta staðfestir Persónuvernd í samtali við mbl.is.
Reykjavíkurborg hafði áður sent hliðstæða umsókn til Póst- og fjarskiptastofnunar en niðurstaða stofnunarinnar var að hafna umsókninni þar sem hún hefði ekki heimild samkvæmt lögum til þess að veita slíka undanþágu. Þess í stað benti Póst- og fjarskiptastofnun á Persónuvernd sem hefði heimidl til þess að veita undanþágu frá sambærilegum ákvæðum í persónuverndarlögum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Ekki hefur náðst í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, vegna málsins.