Skjaldkirtilslyf komið aftur í sölu

Skjaldkirtilslyfið Levaxin er nú fáánlegt á ný hérlendis. Mynd úr …
Skjaldkirtilslyfið Levaxin er nú fáánlegt á ný hérlendis. Mynd úr safni. Getty Images

Algengt skjaldkirtilslyf sem hefur verið ófáanlegt hér á landi frá því í lok mars er nú komið aftur í sölu í apótekum. Lyfið heitir Levaxin og er framleitt af lyfjafyrirtækinu Takeda í Danmörku.

Levaxin hefur ekki verið fáanlegt hjá framleiðanda og hefur af þeim sökum vantað í hillur apóteka víða í Evrópu undanfarið, að sögn Gunnar Helgadóttur framkvæmdastjóra Vistor, umboðsaðila Takeda hérlendis.

Morgunblaðið hefur fjallað um Levaxin-skortinn, sem haft hefur áhrif á fjölmarga notendur lyfsins, enda samheitalyf fyrir Levaxin ekki í boði án samráðs við lækni.

Ásdís Þorvaldsdóttir hefur notað lyfið í rúmt ár vegna vanvirks skjaldkirtils og segir hún í samtali við mbl.is að hún hafi verið án lyfjanna í rúma viku. Hún segir að lyfjaskorturinn hafi leitt til þess að verulega hafi dregið af henni og vinnuþrek tapast.

„Hægt og sígandi verður maður mjög þreyttur og sefur mikið og svo er ég með stanslausan höfuðverk og svona þrýsting í augunum. Það virkar þannig á mig og þar sem ég vinn við tölvu er ég eiginlega hætt að hafa úthald í daginn,“ segir Ásdís.

„Í gær fór ég heim um tvöleytið og svaf í klukkutíma, þá hresstist ég. Svo er ég ágæt á morgnana, þegar ég vakna. En núna er eiginlega farið að draga svolítið af mér. Þetta er bölvað ólán,“ segir Ásdís, sem var á leið í apótek að verða sér úti um lyfið er blaðamaður náði tali af henni.

Aðalsteinn Jens Loftsson lyfjafræðingur hjá Lyfju og Apótekinu segir í samtali við mbl.is að leiðinlegt sé þegar nauðsynleg lyf sem þetta sé ófáanlegt en að honum vitandi hafi enginn borið verulegan skaða af Levaxin-skortinum.

Aðalsteinn ráðleggur fólki að koma tímanlega í apótek til þess að leysa út nauðsynleg lyf, í stað þess að bíða með að taka síðustu töflurnar af fyrri skammti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert