Hæstiréttur dæmdi í dag fyrrverandi stjórnendur Milestone til að greiða þrotabúi Milestone óskipt 126 milljónir króna vegna lánveitingar Milestone til einkahlutafélagsins Sáttar árið 2007, en félagið var í eigu forstjóra Milestone. Var lánið notað til að greiða fyrir hlutabréf annars félags forstjórans sem keypti hlut í Öskum Capital, dótturfélagi Milestone.
Héraðsdómur hafði áður dæmt að þrotabú Sátta ætti að greiða þrotabúi Milestone upphæðina, niðurstöðunni var áfrýjað af Milestone þar sem skiptastjóri taldi að forstjórinn og eigendur Milestone bæru einnig ábyrgð á lánveitingunni. Tók Hæstiréttur undir þá kröfu og dæmdi þá Karl og Steingrím Wernessyni, eigendur Milestone og Guðmund Ólason, fyrrverandi forstjóra félagsins, til að greiða einnig upphæðina.
Málið snýst um að Milestone veitti félaginu Sáttur ehf., sem var í eigu Guðmundar, 100 milljón króna lán. Sáttur átti einnig 1,5% hlut í Milestone. Hæstiréttur segir í dómi sínum að vegna eignar sinnar í Milestone hafi verið óheimilt samkvæmt hlutafélagslögum að veita lánið. Reyndar sé undanþága þegar starfsmönnum sé veitt lán til að kaupa í félaginu, en í þessu tilfelli hafi lánið verið notað fyrir annað félag í eigu forstjórans sem hafi svo keypt í dótturfélagi, en ekki móðurfélaginu. Því sé lánveitingin ekki heimil og hafi átt að endurgreiðast. Þá hafi engin gögn verið sett fram sem renni stoðum undir að lánið hafi getað talist hluti af almennri starfsemi Milestone.
Sáttur ehf. var áður lýst gjaldþrota og samkvæmt upplýsingum skiptastjóra frá því í fyrra voru eignir búsins áætlaðar 7,5 milljónir. Heildarkröfur á félagið voru hins vegar 2,26 milljarðar, þar af 366 milljónir frá þrotabúi Milestone. Áætla má því að ekki fáist greiddar nema 1,2 milljón úr þrotabúinu vegna lánveitingarinnar.
Hæstiréttur tekur svo undir kröfu þrotabús Milestone um að Karl, Steingrímur og Guðmundur beri óskipta ábyrgð á lánveitingunni. Guðmundur sem forstjóri og sá sem skrifaði undir lánið fyrir bæði eigið félag og Milestone og þeir Karl og Steingrímur sem stjórnarmenn í félaginu. Hafi þeir „með beinum eða óbeinum hætti veitt Guðmundi heimild til að veita lánið.“
Lánið var veitt í erlendum myntum og á núverandi gengi er upphæðin um 126 milljónir króna.
Þetta er ekki fyrsta málið sem fyrrverandi stjórnendur félagsins eru dæmdir til að greiða háar upphæðir vegna viðskipta félagsins. Í fyrra voru þremenningarnir dæmdir til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða vegna millifærslna sem voru gerðar á reikning Ingunnar Wernersdóttur, systur bræðranna, en með því létu þeir félagið fjármagna kaup sín á hlutafé Ingunnar í Milestone. Áður höfðu þremenningarnir hlotið fangelsisdóm vegna viðskiptanna í Milestone-málinu svokallaða.
Þá var Aurláki ehf, félag í eigu Karls og Steingríms dæmt til að greiða þrotabúi Milestone 970 milljónir vegna sölunnar á lyfjaverslunini Lyfjum og heilsu, sem seld var frá Milestone til Aurláka í mars árið 2008. Félagið Aurláki var á þeim tíma þegar salan fór fram í eigu bróður Karls, Steingríms Wernerssonar, en þrotabúið taldi að tilgangurinn með henni hefði verið að koma Lyfjum og heilsu undan gjaldþroti Milestone sem stjórnendum þess félags hefði átt að vera ljóst að stefndi í. Milestone var þá í eigu og undir stjórn bræðranna.