Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sakar Alþýðusamband Ísland(ASÍ) um að vera þrýstiafl fyrir viðsemjendur verkalýðsfélaganna og hótar að lýsa vantrausti á forystu ASÍ vegna auglýsingar á Facebook-síðu samtakanna.
Ragnar sendi í vikunni fjölda tölvupósta sem stílaðir voru á alla sem fá fréttamola ASÍ og hefur Morgunblaðið þá undir höndum. Í myndbandi ASÍ, sem birt er undir yfirskriftinni „Kjarabætur snúast ekki um krónur heldur hvað fæst fyrir þær. Það heitir kaupmáttur“, er farið yfir staðreyndir um kjarabætur og kaupmáttaraukningu frá árinu 1970 til ársins 2016, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Það er dapurlegt til þess að vita að Alþýðusamband Íslands noti fjármuni hreyfingarinnar til að lobbía fyrir okkar helstu viðsemjendur,“ ritar Ragnar í fyrsta tölvupósti sínu og sakar þar ASÍ um að setja kaupmátt launa fram á villandi hátt.
Ragnar segir myndband ASÍ ekki mála rétta mynd af stöðu launafólks á Íslandi og er afar ósáttur við fullyrðingar stjórnvalda, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um ástand launþega á Íslandi í skrifum sínum.