„Hvað er algert hlé? Ég hélt að annað hvort væri hlé eða ekki hlé. Er ráðherrann að gefa annað í skyn í þessu riti? Og ég spyr þá: Er það hluti af díl þessara stjórnarflokka að hafa orðalagið með þessum hætti? Að ekki sé skýrar kveðið á um að við erum ekki umsóknarríki og verðum ekki umsóknarríki á næstunni?“ spurði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, á Alþingi fyrr í vikunni en til svara var Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Vísaði Gunnar Bragi til skýrslu sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér í lok apríl þar sem fjallað er um framkvæmd EES-samningsins. Fram kemur í skýrslunni að tveimur árum eftir að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafi tekið við árið 2013, sem Gunnar Bragi var utanríkisráðherra í, hafi hún kunngert „að gert hefði verið algert hlé á viðræðunum [um inngöngu í Evrópusambandið] og væri ekki litið svo á að Ísland væri umsóknarríki.“
„Þegar viðræðunum var hætt, ef menn vilja nota orðið slitið geta menn það að sjálfsögðu, var alveg skýrt að það var ekkert eftir af þessu ferli. Það kom alveg skýrt fram líka. Bréf það sem var afhent forsvarsmönnum Evrópusambandsins tók af allan vafa um það sem og bréf forsætisráðherra. Því hljótum við að spyrja hvað algert hlé þýðir,“ sagði Gunnar Bragi ennfremur og vísaði þar til bréfs til sambandsins árið 2015 um að viðræðunum væri hætt.
Guðlaugur Þór sagði að hvorki hann né ríkisstjórnin hefði áhuga á inngöngu í Evrópusambandið. Furðaði hann sig á því að fá spurningu um það hvort stefnubreytingu væri um að ræða í þeim efnum. „Ég hef ekki fundið neinn áhuga hjá samstarfsflokkum mínum á því að daðra við aðild að Evrópusambandinu, hvað þá að ganga eitthvað lengra. Ég hélt að ég hefði talað frekar skýrt þegar kemur að því hvaða skoðun ég hef á aðild að Evrópusambandinu.“
Gunnar Bragi fagnaði þeim orðum utanríkisráðherra að orðalagið í skýrslunni væri ekki til marks um stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar. „Maður veltir fyrir sér hvort þessi texti hafi óvart runnið fram hjá augum ráðherrans þegar verið var að undirbúa skýrsluna í stað þess að þetta sé einhvers konar stefnubreyting.“ Sagðist hann túlka orð ráðherrans á þann hátt að „þetta orðalag hafi einhvern veginn smitast inn frá embættismönnum ráðuneytisins.“
Utanríkisráðherra sagði að ekki þyrfti að hafa neinar áhyggjur af því að íslenska þjóðin vaknaði upp einn daginn og hefði óvart dottið inn í Evrópusambandið. Það væri ekki að fara að gerast. „Hvað varðar orðalag í skýrslum geri ég ráð fyrir að þetta sé tekið upp í takti við það orðalag sem var til staðar þegar menn gengu frá þessu. Ég var ekki þar í embætti utanríkisráðherra.“ Ítrekaði hann að stefna ríkisstjórnarinnar væri að standa utan sambandsins.