Hvalfjarðargöng lokuð vegna óhapps

Hvalfjarðargöng eru lokuð um óákveðinn tíma vegna umferðaróhapps.
Hvalfjarðargöng eru lokuð um óákveðinn tíma vegna umferðaróhapps. mbl.is/Árni Sæberg

Lokað er fyrir umferð um Hvalfjarðargöng vegna umferðaróhapps. Rúta og fólksbíll sem komu úr gagnstæðri átt lentu saman í göngunum, en einungis bílstjórarnir tveir voru um borð í ökutækjunum.

Ökumennirnir voru fluttir til aðhlynningar á Akranes og til Reykjavíkur. Áverkar þeirra eru minni háttar, en áreksturinn var þó allharður og ökutækin talsvert skemmd, samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Sjúkrabílar frá Akranesi, Borgarnesi og Reykjavík mættu á vettvang auk dælubíls frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og mannskaps frá Björgunarsveitinni Kili á Kjalarnesi.

Búast má við að lokunin vari að minnsta kosti til klukkan 14, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Vesturlandi. Unnið er að því að hreinsa upp olíu í göngunum.

Vegfarendum er bent á að aka um Hvalfjörð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert