„Þetta er nokkuð sem menn hafa látið sig dreyma um að verði að veruleika einn daginn,“ segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, í Morgunblaðinu í dag, um verkefni sem Alcoa, ríkisstjórn Kanada, Rio Tinto og Apple standa að baki.
Verkefnið snýr að því að losna alfarið við útblástur gróðurhúsalofttegunda í álframleiðslu. Fram kemur í tilkynningu sem Alcoa sendi frá sér að stórt skref hafi verið stigið í ferlinu og stefnt sé að því að verkefninu ljúki og sala á tækninni hefjist árið 2024.
Bjarni Már segir að langt sé síðan menn hófu rannsóknir sem miðuðu að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda við álframleiðslu.