Undirskriftir gegn hvalveiðum afhentar

Frá afhendingu undirskriftanna í dag.
Frá afhendingu undirskriftanna í dag. mbl.is/Valli

Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, voru í dag afhentar 50.424 undirskriftir þar sem hvalveiðum Íslendinga er mótmælt. Að söfnuninni stóðu Alþjóða dýravelferðarsjóðurinn (IFAW), Hvalaskoðunarsamtök Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar.

Þeir sem tóku þátt í undirskriftasöfnuninni, sem fram fór á vefsíðu IFAW á Íslandi og að mestu leyti fram á síðasta ári, lýstu yfir stuðningi við eftirfarandi kröfu: „Ég heiti því að borða ekki hvalkjöt og vil að stjórnvöld geri allan Faxaflóa að griðarsvæði fyrir hvali."

Sigursteinn Másson, fulltrúi IFAW á Íslandi, segir í samtali við mbl.is að flestir þeirra sem tekið hafi þátt séu erlendir ríkisborgarar og meirihluti þeirra erlendir ferðamenn.

Fram kemur í fréttatilkynningu að krafan sé í samræmi við ályktanir Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, Samtaka ferðaþjónustunnar, allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur og fleiri um að Faxaflóinn verði allur gerður að griðarsvæði hvala en ekki aðeins að hluta.

Rifjað er upp að í ágúst 2016 hafi 100 þúsund undirskriftum verið safnað þar sem krafist hafi verið að hvalveiðum yrði hætt við Ísland og þeim skilað til ráðherra.

Ráðherra boðar úttekt á hvalveiðum

Ennfremur segir að ráðherra hafi greint frá því við afhendingu undirskriftanna í dag að hann hefði lagt fram minnisblað fyrir ríkisstjórnina í morgun um úttekt á hvalveiðum sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnun hefðu umsjón með. Ólíkir hagsmunaaðilar yrðu kallaðir að borðinu og stefnt að niðurstöðu í haust.

„Það er von okkar sem að undirskriftarsöfnunni stöndum að meiri hagsmunir verði teknir fram yfir minni sem og sjónarmið dýravelferðar,“ segir að lokum.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu að úttekin muni fjalla um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða og áhrif þeirra á aðrar atvinnugreinar.

Slík úttekt hafi verið gerð árið 2010 og hafi þá komið fram að þjóðhagslega hagkvæmt væri að halda hvalveiðum áfram. Þær niðurstöður og aðrar verði því endurmetnar miðað við þróun síðustu ára. 

„Jafnframt hefur ráðherra óskað eftir því við Hafrannsóknastofnun að stofnunin meti fæðuþörf hvala og vægi þess í lífríki sjávar hér við land. Framangreind vinna mun meðal annars nýtast við ákvörðun ráðherra um hvort gefin verði út áframhaldandi kvóti til hvalveiða þegar núverandi kvótatímabili líkur við lok þessa árs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert