Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, mun á næstu dögum gefa út formlega vantraustsyfirlýsingu á hendur Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ), eftir að ASÍ neitaði að taka niður auglýsingu um kaupmáttaraukningu.
„Ég get fullyrt að ég mun lýsa yfir vantrausti á forsetann – eftir höfðinu dansa limirnir og hann er forseti ASÍ. Ég hef lýst yfir vantrausti á hann áður en mun gera það með formlegum hætti á næstu dögum, öðruhvorum megin við helgina,“ segir Ragnar Þór í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í gær.
Hann sendi tölvupóst á félagsmenn ASÍ í vikunni þar sem hann óskaði eftir því að auglýsing á facebooksíðu ASÍ yrði tekin niður, annars myndi hann ásamt öðrum formönnum aðilarfélaga ASÍ lýsa yfir vantrausti á forsetann. Hann segir að VR muni benda á það eftir helgi hvað kaupmáttarvísitalan kemur rangt fram í myndbandinu en annars er hann ósáttur við að skautað sé framhjá efnahagshruninu í tímalínu ASÍ.