Álag og áföll eru hluti af lífinu

Nauðsynlegt er að fólk geri sér grein fyrir því að …
Nauðsynlegt er að fólk geri sér grein fyrir því að það kemst ekki í gegnum lífið án þess að verða fyrir áföllum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nær helmingur þátttakenda í doktorsrannsókn Margrétar Ólafíu Tómasdóttur, heimilislæknis, reyndist fjölveikur. Það er, þjáist af tveimur eða fleiri langvinnum sjúkdómum. Sterk tengsl voru á milli líkamalegra og andlegra veikinda en annars voru mynstur sjúkdómanna mjög ólík.

Margrét vann verkefnið sína meðal íbúa í Norður-Þrændalögum í Noregi en öllum íbúum í fylkinu á aldrinum 20-79 ára var boðið að taka þátt. Um faraldsfræðilega rannsókn með vísan til streituþátta var að ræða en rannsóknin hefur verið gerð reglulega undanfarin fjörtíu ár. Um er að ræða stóran opinn spurningarlista sem er sendur til fólks auk þess sem það fer í blóðrannsóknir.

Margrét segir að rannsóknin sýni að 42% íbúanna glími við fjölveiki. Þetta er svipað hlutfall og annars staðar þar sem sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar. Að vísu hafi hlutfallið verið heldur lægra á Íslandi í rannsókn sem gerð var hér á landi en sú rannsókn náði til allra aldurshópa, það er bæði fullorðinna og barna.

Í rannsókn Margrétar eru tengsl milli upplifunar í æsku og fjölveikinda á fullorðinsárum sterk og voru fjölveikindin algengari samfara erfiðri upplifun í æsku.

Svipað samband fannst milli tilvistarvanda á fullorðinsárum og þróunar fjölveikinda. Það voru marktæk tengsl milli flestra þátta tilvistarvandans og þróunar fjölveikinda, en þau voru algengari eftir því sem tilvistarvandinn varð fjölþættari.

Álag, sem er meira en einstaklingur þolir eða telur sig þola, hefur áhrif á hormónakerfi og eins innkirtlakerfi og taugakerfi viðkomandi, segir Margrét. Smám saman hefur þetta áhrif á þróun sjúkdóma en þegar einstakir sjúkdómar voru skoðaðir sáust sömu tengsl í tilviki 19 sjúkdóma af 21 sem var skoðaður.

Hún segir að það sé aðeins misjafnt á milli rannsókna hvort fjölveikindi séu algengari meðal kvenna eða karla en margar þeirra sýni að slík veikindi séu  algengari meðal kvenna og það var niðurstaða rannsóknar Margrétar. Eðli málsins samkvæmt eru fjölveikindi algengari meðal eldra fólks en yngra.

Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilslæknir.
Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilslæknir.

„En þeir hópar sem við horfðum sérstaklega til voru hópar yngra fólks sem var komið með fjölveikindi og hvort áföll væru að spila þar inn í,“ segir Margrét.

Niðurstaðan var sú að þeir sem upplifðu mjög erfiða æsku voru að meðaltali lágvaxnari, með stærra mitti og hærri líkamsþyngdarstuðul. Eins voru þeir með hraðari hvíldarhjartslátt og lægri blóðþrýsting en þeir sem upplifðu mjög góða æsku.

Niðurstöðurnar benda til tengsla milli erfiðra aðstæðna, bæði í barnæsku og á fullorðins árum, og fjölveikinda seinna á ævinni. Tengslin verða sterkari við aukna erfiðleika hvort sem það er erfiðari upplifun á barnsæsku eða fjölþættari tilvistarvandi á fullorðinsárum, segir meðal annars í doktorsverkefni Margrétar, Multimorbidity in the Norwegian HUNT popluation - An epidemiological study with reference to the concept allostatic load.

„Þetta er leyndur vandi sem læknavísindin hafa ekki einbeitt sér sérstaklega að á undanförnum árum. Sem betur fer er að aukast að áhersla sé lögð á áhrif áfalla og streitu í barnæsku á heilsufar síðar á lífsleiðinni.“ segir Margrét.

Margrét segir mikilvægt að kenna fólki rétt bjargráð í stað þess að fólk geri eins og það hefur jafnvel gert í barnæsku sem getur þýtt að fólk fari út í lífið með bjargráð sem ekki gera þeim gott til lengri tíma litið.

Hún segir áföllin af ýmsum toga og áður hafi aðallega verið horft til áfalla eins og kynferðislegs ofbeldis, vanrækslu og annars konar ofbeldis en í hennar rannsókn sé meira horft á upplifun einstaklingsins. Það þurfi ekki vera um eitthvað fyrirfram skilgreint áfall að ræða heldur það hvernig einstaklingur upplifir hlutina enda er það þín upplifun sem hefur áhrif á þinn heila. Kannski eitthvað sem þú upplifir sem áfall en ekki einhver annar, segir Margrét.

Mikilvægt að grípa inn strax

Nýjar rannsóknir sýna að andleg líðan ungra stúlkna hefur versnað til muna á síðustu árum og margar þeirra glíma við kvíða. Margrét segir að þetta sýni mikilvægi þess að grípa strax inn hjá ungu fólki.

Getty Images

„Þetta er eitthvað sem verður að nálgast á lýðheilsugrundvelli. Meðal annars með seigluþjálfun. Að fólk geri sér grein fyrir að það kemst ekki í gegnum lífið án þess að verða fyrir áföllum en læri heilbrigð bjargráð sem geti komið þeim í gegnum erfiðleikana án þess að áföllin valdi streitu sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þetta er eitthvað sem allt velferðarkerfið verður að sameinast um.“

Margrét segir að þetta sé ekkert sem kemur heimilislæknum á óvart enda stór hluti þeirra sem leita til heimilislækna glíma við fleiri en einn vanda og oft vanda tengda streitu og áföllum og áhrif þeirra á líkamalega heilsu.

„Við erum að sjá mikla vitundarvakning um þessi mál og vonandi verður þessu fylgt markvisst eftir. Að börn verði alin upp við að álag er hluti af lífinu og kenna þeim að takast sem best á við slík áföll,“ segir Margrét en hún er ein þeirra sem heldur erindi á málþingi Geðhjálpar og Virk um konur, geðræna erfiðleika og leiðir til lausna næstkomandi föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka