Maður var í kvöld fluttur með þyrlu á sjúkrahús Landspítalans í Fossvogi eftir að bifreið hans valt. Hafði lögreglan á Suðurlandi ákveðið að beita lögreglubifreið til að stöðva akstur mannsins.
Lögreglan hafði áður fengið tilkynningu um að maðurinn gengi berserksgang með tveggja tonna gröfu við heimili sitt. Á leið sinni á vettvang mættu lögreglumenn manninum á bíl og voru honum gefin stöðvunarmerki en þeim sinnti hann ekki, að því er fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar. Ók maðurinn á undan lögreglu áleiðis eftir Skálholtsvegi og upp í Þjórsárdal.
Reynt var að stöðva för mannsins á Skálholtsvegi, en hann þvingaði lögreglubifreiðina út fyrir veg. „Í ljósi ástands mannsins, aksturslags og þeirrar almennu umferðar sem þarna á leið um var ákveðið að beita lögreglubifreið til að stöðva akstur mannsins. Það var gert á Þjórsárdalsvegi en við það valt bifreið hans,“ segir í tilkynningunni.
Sem fyrr segir var maðurinn fluttur með þyrlu til Reykjavíkur. Hann var með meðvitund, en ekki er vitað nánar um meiðsl hans. Þau eru þó ekki talin alvarleg að sögn lögreglu. Engan lögreglumann sakaði í aðgerðunum og aðstoðar nú tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn vettvangs.