Mikill meirihluti landsmanna er andvígur því að frekara vald yfir orkumálum á Íslandi verði fært til evrópskra stofnana. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið Maskína gerði fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum.
Tilefni könnunarinnar er umræða á undanförnum mánuðum um fyrirhugaða þátttöku Íslands í svonefndum þriðja orkupakka Evrópusambandsins og Orkustofnun sambandsins í gegnum Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna aðildar landsins að EES-samningnum.
Samtals eru 80,5% andvíg því að færa vald yfir íslenskum orkumálum til evrópskra stofnana. Þar af 57,4% mjög andvíg og 23% frekar andvíg. Hins vegar eru 8,3% hlynnt því. Þar af eru 3,8% mjög hlynnt og 4,5% frekar hlynnt. Þá eru 11,3% í meðallagi andvíg/hlynnt.
Meirihluti stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi er andvígur því að færa vald yfir orkumálum á Íslandi til evrópskra stofnana. Mest andstaðan er á meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem 91,6% eru andvíg og 2,8% hlynnt.
Næstir koma stuðningsmenn Miðflokksins með 91,1% andvíg og 1,4% hlynnt, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs með 86,3% andvíg og 0% hlynnt, Framsóknarflokksins með 88,5% andvíg og 0% hlynnt og síðan Viðreisnar með 69,6% andvíg og 18,4% hlynnt.
Þar á eftir koma stuðningsmenn Flokks fólksins með 64,1% andvíg og 6,3% hlynnt, Samfylkingarinnar með 63,8% andvíg og 18,6% hlynnt og loks stuðningsmenn Pírata með 60,8% andvíg og 18,7% hlynnt. Aðrir stuðningsmenn flokkanna eru í meðallagi andvígir/fylgjandi.
Þegar kemur að kynjum eru 83,8% kvenna andvíg því að vald yfir stjórn íslenskra orkumála sé fært til evrópskra stofnana og 5,5% fylgjandi á meðan 77,7% karla eru andvíg og 10,4% hlynnt. Andstaðan eykst eftir því sem fólk er eldra og meiri andstaða er utan Reykjavíkur.
Þannig eru 75,8% íbúa Reykjavíkur andvíg þessum ráðahag og 11,1% hlynnt en 87% andvíg á Austurlandi og 7,3% hlynnt. Næstmest er andstaðan á Norðurlandi (85,4% andvíg og 10,5% hlynnt) og síðan Vesturlandi og Vestfjörðum (85,2% andvíg og 0% hlynnt).
Hvað menntun varðar eru þeir sem eru með framhaldsskólapróf/iðnmenntun mest andvígir eða 85,6% þeirra en 5% hlynnt. Þá koma þeir sem eru með grunnskólapróf (79,2% andvíg og 8,2% hlynnt) og þeir sem hafa háskólapróf (77,8% andvíg og 9,7% hlynnt).
Þegar kemur að tekjum er andstaðan við slíka færslu á valdi úr landi mest á meðal þeirra sem eru með 800-999 þúsund krónur í mánaðarlaun (88,5% andvíg og 3,5% hlynnt) og næst mest hjá þeim sem eru með 400-549 þúsund krónur (84,4% hlynnt og 5,7% hlynnt).
Minnst andstaða á meðal tekjuhópa er hjá þeim sem eru með lægri tekjur en 400 þúsund krónur á mánuði eða 70,4%. Á meðal þeirra eru 9,6% hlynnt. Mestur stuðningur er á meðal þeirra sem eru með yfir eina milljón króna í mánaðartekjur eða í kringum 13%.
Könnunin var gerð dagana 24. apríl - 7. maí. Svarendur voru 848 á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu.