Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, gagnrýnir harðlega að þurfa að synja sérfræðilæknum um aðild að rammasamningi vegna fjárskorts. RÚV greinir frá. Telur hann að synjun um aðild að samningnum sé brot gegn honum. Meta eigi þörf fyrir lækna sem teknir séu inn í samninginn.
„Í þessu tilviki hefur ekki verið látið á það reyna, en það er álit Sjúkratrygginga Íslands að það sé þörf fyrir taugalækna, þannig það fer ekkert á milli mála að það er okkar álit að þetta standist ekki samninginn,“ sagði hann í samtali við RÚV.
Í fréttum í gær kom fram að Anna Björnsdóttir sérfræðilæknir hefði lagt fram stjórnsýslukæru í ljósi þess að hún fengi ekki aðild að samningnum.
Anna er sérhæfð í Parkinsons-sjúkdómnum og starfar á Duke-háskólasjúkrahúsinu í Norður-Karólínu. Í bréfi landlæknis til bandarískra heilbrigðisyfirvalda sagði að mikil þörf væri á læknum hér á landi með þessa sérfræðimenntun og lagði Anna inn umsókn að rammasamningum til að opna stofu hér á landi. Umsókn hennar var hafnað í ljósi þess að heilbrigðisráðherra hafði ákveðið að fleiri læknar fengju ekki aðild að samningnum.
Takmörkunin sem um ræðir hófst í lok ársins 2015 vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu á fjárlagaliðum Sjúkratrygginga Íslands. Óskaði stofnunin eftir endurskoðun ákvörðunarinnar, en ráðuneytið staðfesti hana.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir í svari til RÚV að miðað við reynsluna af fyrirkomulaginu gangi það ekki upp. Breytingar þurfi að gera sem tryggi að stjórnvöld verði ábyrgur kaupandi heilbrigðisþjónustu í samræmi við það sem Ríkisendurskoðun hafi kallað eftir.
Ljóst þurfi að vera hvaða þjónustu er þörf hér á landi og í hve miklum mæli þannig að framboð á þjónustu sérgreinalækna sé eins og kostur sé í samræmi við þarfir notenda, þannig sé staðan ekki nú.
Ráðherra kveður vinnu við endurskoðun fyrirkomulagsins standa yfir og að hún hafi lagt áherslu á að henni verði hraðað.