Hreinsa burt lím af Flateyjarbók

Flateyjarbók.
Flateyjarbók. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Tímamótaviðgerð er nú í gangi á Flateyjarbók, einu merkasta handriti Íslendinga, en gerð var grein fyrir henni á ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem fram fór í morgun. Viðgerðin hófst fyrir fimm árum en hægt var að halda því áfram eftir hlé í kjölfar þess að ríkisstjórnin veitti fimm milljónum króna til verksins í desember.

Við verkið verður Flateyjabók, sem er í tveimur bindum og rituð að mestu undir lok 14. aldar, tekin úr bandinu og hreinsað burt lím og aukaefni. Vinnan fer fram í rakastýrðu rými í Árnagarði. Tveir forverðir sinna verkinu; Vasare Rastonis, forvörður Árnastofnunar, og Jiri Vnouèek sem starfar hjá Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Vinnan mun vera í gangi næstu ár.

Eftir að viðgerð á Flateyjarbók lýkur verður bókin komin í sýningarhæft ástand en til stendur að hún verði til sýnis í Húsi íslenskunnar þegar það hefur verið reist og hafið starfsemi. Gert er ráð fyrir sýningu á fleiri handritum en í vörslu Árnastofnunar eru nokkur þúsund handrit, handritshlutar og fornbréf sem rituð eru á Íslandi og um íslenskt málefni.

Fyrirhuguð endurskoðun á íslenskri málstefnu

Flateyjarbók er stærst allra íslenskra skinnbóka og er samanlagt 225 blöð. Þar af 202 blöð rituð eru undir lok 14. aldar og 23 blöð sem bætt var við á síðari hluta 15. aldar. Handritið þykir einstakt að því leyti að það segir meira um uppruna sinn en önnur íslensk miðaldahandrit sem í fæstum tilfellum geta skrifara sinna eða ritunartíma.

Meginviðfangsefni Flateyjarbókar er sögur af Noregskonungum. „Á Flateyjarbók hefur varðveist mikið af merkilegu efni sem hvergi er annarsstaðar til, enda hafa við gerð hennar verið notuð fleiri forrit en að nokkru öðru handriti íslensku; hún verður því ævinlega talin með merkustu handritum íslenskra bókmennta,“ segir á vef Árnastofnunar.

Fleira var til umfjöllunar á ársfundi Árnastofnunar. Meðal annars fjallaði Stefanía G. Halldórsdóttir, stjórnarformaður Almannaróms, um fundi nýverið með bandaríska hugbúnaðarrisanum Microsoft og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, en íslenska hefur nú verið tekin formlega í hóp þeirra tungumála sem notuð eru við þýðingarlausnir.

Þá flutti Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarp þar sem hún meðal annars greindi frá undirbúningi á fyrirhugaðri þingsályktun sem muni meðal annars snúa að endurskoðun á íslenskri málstefnu. Stefnt er að því að tillagan verði lögð fram í haust.

Frá ársfundi Árnastofnunar.
Frá ársfundi Árnastofnunar. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert