„Mjög ánægður með þessa einörðu afstöðu“

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég get ekki sagt annað en að ég sé mjög ánægður með þessa einörðu afstöðu íslensku þjóðarinnar í þessu máli,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag um niðurstöður skoðanakönnunar sem fyrirtækið Maskína gerði fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum.

Fram kemur í niðurstöðunum að 80,5% séu andvíg því að færa völd yfir íslenskum orkumálum til evrópskra stofnana. Tilefnið er umræða að undanförnu um það hvort Ísland eigi að samþykkja svonefndan þriðja orkupakka Evrópusambandsins og aðild að Orkustofnun sambandsins í gegnum aðild landsins að EES-samningnum.

„Í grunninn snýst málið um að tryggja stjórn okkar Íslendinga á orkuframleiðslunni og orkuflutningum og hvernig við teljum best að þessari mikilvægu auðlind okkar verði ráðstafað til langrar framtíðar. Við erum stórir raforkuframleiðendur og reyndar þeir stærstu á jörðinni á hvert mannsbarn,“ segir Njáll Trausti enn fremur.

„Þannig að hér er um að ræða gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga og mikilvægt að við vöndum okkur vel í þessu máli sem snýr að grundvallarhagsmunum okkar.“ Rifjar Njáll upp að hliðstæð niðurstaða hafi komið fram í skoðanakönnun í Noregi í mars en meirihluti þarlendra þingmanna hafi samþykkt aðild Noregs.

Til stendur að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra leggi fram þingsályktun á Alþingi um samþykkt þriðja orkupakka Evrópusambandsins og aðild Íslands að orkustofnun sambandsins. Heimssýn hefur hvatt þingmenn til þess að íhuga alvarlega að hafna tillögunni og ýmsir þingmenn hafa lýst efasemdum sínum um málið.

Tveir ríkisstjórnarflokkar hafa enn fremur ályktað gegn aðild að þriðja orkupakkanum, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í vetur að orkumál Íslands væru ekki málaflokkur sem Evrópusambandið ætti að hafa eitthvað að segja um.

Til þess að þriðji orkupakki Evrópusambandsins verði tekinn inn í EES-samninginn þarf samþykki Alþingis en innbyggt er í samninginn að einróma samþykki sambandsins og aðildarríkja hans sem standa utan þess, það er Íslands, Noregs og Liechtenstein sem eiga aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), þurfi í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka