Hafin er undirskriftasöfnun á Álftanesi þar sem mótmælt er breytingu á aðalskipulagi sem gerir ráð fyrir níu fjölbýlishúsum á svonefndu Miðsvæði.
Íbúar telja að ef þarna verði reistar þriggja hæða byggingar sé það stílbrot við annað á svæðinu og vilja þeir því að bæjaryfirvöld í Garðabæ falli frá þessum áformum.
Ásýnd þessara húsa hæfi heldur ekki í návígi við forsetasetrið á Bessastöðum, þangað sem tignir gestir komi gjarnan í heimsóknir, að því er fram kemur í umfjöllun um mótmæli þessi í Morgunblaðinu í dag.