Íslensk erfðagreining opnar í hádeginu á morgun vefgáttina Arfgerð.is. Þar getur fólk sjálft óskað eftir því með einfaldri aðgerð að vita hvort það sé arfberi stökkbreytingar í erfðavísinum BRCA2.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu.
Þar segir að fyrirtækið eigi dulkóðuð gögn um ríflega eitt þúsund Íslendinga sem hafi sjúkdómsvaldandi stökkbreytingu í erfðavísinum, en 86% líkur eru á að konur í þessum hópi fái krabbamein. Hlutfallið er ívið lægra meðal karla.
Fram kemur að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafi margoft lýst þeirri skoðun að almannahagsmunir krefjist þess að arfberar séu upplýstir um stökkbreytinguna BRCA2 vegna alvarleika málsins.
„Með þessu er verið að fara milliveginn og hjálpa fólki að nálgast þessar upplýsingar sem þegar eru til í gögnum fyrirtækisins sér að kostnaðarlausu,“ segir í tilkynningunni um nýju síðuna.
„Það er tiltölulega einfalt að nota vefgáttina til að fá þessar upplýsingar og bregðast við í framhaldi af því ef þess er óskað. Þeir sem hafa ekki gefið sýni í rannsóknir á vegum Íslenskrar erfðagreiningar geta gert það í Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna, í Turninum í Kópavogi, óski þeir eftir að fá vitneskju um stökkbreytinguna.
Með þessu vill Íslensk erfðagreining koma til móts við íslenskan almenning sem hefur sýnt mikið örlæti og ábyrgð þegar kemur að þátttöku í vísindarannsóknum á vegum fyrirtækisins.“