Stefna á þátttöku í Ísrael að ári

Netta frá Ísrael fagnaði sigri í Eurovision á laugardag.
Netta frá Ísrael fagnaði sigri í Eurovision á laugardag. AFP

„Við gerum fastlega ráð fyrir því að vera með að ári eins og við gerum alltaf,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, þegar hann er inntur að því hvort tekið verði til skoðunar að sniðganga Söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem haldin verður í Ísrael á næsta ári.

Félagið Ísland-Palestína hefur meðal annarra gagnrýnt Evrópu fyrir að hafa ekki staðið með mannréttindum þegar Ísrael stóð uppi sem sigurvegari keppninnar á laugardag. Þá hefur stjórnarmaður varastjórnar félagsins hvatt Íslendinga til að sniðganga keppnina.

„Við getum orðað það þannig á þessu stigi að það er allt tekið til skoðunar,“ segir Skarphéðinn. „Við eigum eftir að funda um þetta og meta stöðuna eins og við gerum alltaf. Það er ýmislegt sem spilar inn í, hvar keppnin er haldin og kostnaður við að taka þátt í keppninni og svoleiðis.“

Skarphéðinn segir óhætt að ætla að keppnin verði enn umdeildari verði hún haldin í Jerúsalem eins og Netta Barzilai ýjaði að þegar hún tók við verðlaununum. „Það hefur ekki borist inn á borð til mín staðfesting á því hvar keppnin verður haldin. Þar til það berst formleg tilkynning frá EBU um það hvar keppnin verður haldin að ári þá erum við ekkert að rjúka upp og taka afstöðu til þess.“

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV.

„Það er aldrei sjálfgefið að við verðum með. Við tilkynnum þátttöku okkar með haustinu eins og við gerum alltaf,“ segir Skarphéðinn, og að RÚV eigi eftir að ráðfæra sig við kollega sína á Norðurlöndunum. „Við munum lesa í stöðuna og taka þá fundi sem við erum vön að taka. Þá verður allt uppi á borði og það verður rætt hvort við verðum með að ári eða ekki.“

„Að öllu óbreyttu þá stefnum við að því að halda áfram þátttöku okkar í keppninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert