Rukki vegfarendur í skjóli óvissu

Gjaldtaka hófst að nýju við Hraunfossa í dag.
Gjaldtaka hófst að nýju við Hraunfossa í dag. Ljósmynd/Kristrún Snorradóttir

Gjaldheimtumenn voru enn að störfum á bílastæði Hraunfossa nú undir kvöld þegar veitingastaðnum Hraunfossum var lokað. Þetta segir Kristrún Snorradóttir, sem rekur veitingastaðinn, en upplýst var um það á Facebook-síðu staðarins fyrr í dag að gjaldtaka væri hafin að nýju.

Þúsund krónur voru heimtar á staðnum fyrir hvern einkabíl, en bílnúmer hópferðabíla voru skrifuð niður.

Talsvert var rætt um gjaldtöku á bílastæðinu við Hraunfossa í haust, en lögregla hindraði að lokum gjaldheimtuna að beiðni Vegagerðarinnar í ljósi þess að gjaldtakan leiddi af sér ólögmæta hindrun á þjóðveginum sem liggur að bílastæðinu. 

Einnig taldi löreglustjórinn á Vesturlandi að aðstæður vegna gjaldtökunnar væru með þeim hætti að hætta skapaðist við þjóðveginn og ekki yrði við unað.

„Þeir rukkuðu í haust í þrjá eða fjóra daga þar til þeir voru stoppaðir. Síðan hefur ekkert sést til þeirra í vetur þar til í morgun þegar fólk mætti til vinnu,“ segir Kristrún.

Margir ökumenn neituðu að greiða gjaldið

Aðspurð segir Kristrún að ekki hafi komið fram skýringar á því af hverju gjaldtaka hafi hafist að nýju á þessum tímapunkti, í ljósi þess að ekki hafi borið á henni í vetur. Félagið H-Foss er leigutaki við Hraunfossa og stóð fyrir gjaldtökunni í haust.

„Sá sem er í forsvari fyrir þá var þarna í morgun. Hann sagði að þeirra lögfræðingur teldi þá hafa lagalegan rétt til að rukka fyrir bílastæðin og að þeir muni gera það svo lengi sem þeir standi í trú um að þeir séu í rétti til þess,“ segir hún.

Talsverð umferð hópferða- og einkabíla var við Hraunfossa í dag að sögn Kristrúnar. Aðspurð segir hún marga hafa farið að þeim ráðum sem veitingastaðurinn Hraunfossar lögðu til í færslu sinni í dag, að hundsa gjaldtökuna og „láta reyna á óvissuna í málinu“. Í þeim hópi hafi til dæmis verið fólk sem haldi úti skipulögðum ferðum við Hraunfossa og þekki málið frá því í haust.

„Það hafa alls ekki allir borgað, þeirra á meðal eru líka erlendir ferðamenn sem hafa mætt á svæðið. Þeir þóttust vita að það væri ekki gjaldskylda og spurðu einfaldlega hvað myndi gerast ef þeir borguðu ekki. Þessir menn eru ekki með sektarheimild, fólk leggur bara og það er ekkert meira gert í því,“ segir hún.

Lögregla tók skýrslu af gjaldheimtumönnunum

Kristrún segir að lögregla hafi verið kölluð að Hraunfossum í dag í ljósi þess að nákvæmlega sömu aðstæður væru uppi og urðu þess valdandi að gjaldheimtan var hindruð í haust.

„Þetta var stoppað í haust vegna hættu af því að rútur og bílar þurftu að stoppa hér uppi á vegi. Við töldum að það sama gæti gerst, kölluðum lögreglu til og hún tók skýrslu. Síðan skilst mér að ákvörðun verði tekin um framhaldið á morgun, hvort þeir stoppi þetta aftur af sömu ástæðum og síðast eða ekki,“ segir Kristrún.

Kristrún segir að enn ríki lagaleg óvissa um hvort gjaldheimtan standist. „Það á eftir að klára þetta í kerfinu og á meðan segjast þeir njóta vafans og rukka á meðan. Maður skyldi ætla að fólkið sem kemur á svæðið ætti að njóta vafans ef það er ekki víst að þetta sé löglegt. Það er einkennilegt að menn fái að komast upp með að hafa peninga af fólki og gera það í skjóli óvissu um málið,“ segir hún.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert