Sérstakt eftirlit við Hraunfossa

Gjaldtaka hófst að nýju við Hraunfossa í dag.
Gjaldtaka hófst að nýju við Hraunfossa í dag. Ljósmynd/Kristrún Snorradóttir

Sérstakt eftirlit verður haft með því að almannahætta skapist ekki á þjóðvegi við Hraunfossa vegna gjaldtöku á bílastæði við fossana. Þetta segir Eva B. Helgadóttir, lögmaður forsvarsmanna félagsins H-foss, sem stendur að gjaldtökunni og hefur landið á leigu.

Gjaldtaka við Hraunfossa hófst að nýju í dag, en lögregla stöðvaði framkvæmd hennar í haust.

„Gjaldtakan var stöðvuð af því lögreglan taldi almannahættu skapast af því fólk lagði uppi á þjóðvegi í staðinn fyrir að greiða fyrir bílastæðin. Nú er fólk á staðnum sem sér til þess að sú almannahætta skapist ekki,“ segir Eva.

Hún segir að gjaldtökunni verði fram haldið með þessum hætti og að forsvarsmenn H-foss líti svo á að ekkert banni þeim að taka upp þráðinn að nýju.

Engar forsendur til banns

Yfirvöld skárust í leikinn í haust líkt og áður sagði, en auk lögreglu höfðu Umhverfisstofnun og Vegagerðin afskipti af gjaldtökunni. Eva segir að Umhverfisstofnun hafi bent á að ekki væri lagaheimild fyrir gjaldtökunni og nefnir að stofnuninni sé óheimilt að banna gjaldtökuna á þeim grundvelli að hún eigi sér ekki stoð í lögum.

„Það eru engar forsendur til þess að banna þetta. Umhverfisstofnun hefur haft meiningar um að það skorti lagaheimild til þess að hefja þessa gjaldtöku. Lögin í landinu eru samt þannig að við, einstaklingar og lögaðilar, höfum heimild til að gera allt sem er ekki bannað. Stofnanir þurfa lagaheimildir til þess að banna einstaklingum og lögaðilum að gera eitthvað og sú heimild er ekki fyrir hendi,“ segir hún.

Engin hindrun á veginum

Í yfirlýsingu lögreglu frá því í haust sagði, auk þess að lögreglustjórinn á Vestfjörðum teldi almannahættu á þjóðveginum, að Vegagerðin teldi gjaldtökuna óheimila í ljósi þess að stofnunin, sem veghaldari, hefði ekki heimilað gjaldtökuna. Gjaldtaka án heimildar fæli í sér óleyfilega hindrun á umferð um þjóðveg.

Eva segir lögreglu ekki hafa byggt á þessum athugasemdum Vegagerðarinnar.

„Lögreglan byggði ekki á þessu, hún byggði á því að þarna væri almannahætta. Svo er það þannig að það er ekki verið að reyna að hindra neina umferð. Það er öllum frjálst að keyra þarna um, en ef þeir ætla að leggja bílunum sínum í landi sem þessir aðilar eiga, þá eiga þeir að borga fyrir það. Alveg eins og við borgum fyrir að leggja bílunum okkar á Laugavegi. Við getum keyrt hann, en ef við viljum leggja bílunum okkar þá þurfum við að borga fyrir það og það þykir engin hindrun á umferðinni um Laugaveginn,“ segir hún.

Aðspurð segist hún ekki vita til þess að yfirvöld hafi haft samband við forsvarsmenn H-foss vegna gjaldtökunnar við Hraunfossa í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert