Yfir 20 þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun um að Ísland taki ekki þátt í Eurovision á næsta ári. Ísraelar sigruðu í keppninni nú um helgina, en margir hafa lýst andúð sinni á hernaði Ísraela í áranna rás í kjölfarið og hvatt til þess að keppnin verði sniðgengin.
Á síðu undirskriftalistans, sem Árni St. Sigurðsson stofnaði, segir að „í ljósi mannréttindabrota Ísraelsríkis gagnvart palestínsku þjóðinni er ekki siðferðilega verjandi að taka þátt í glanskeppni eins og Eurovision í skugga þess ofbeldis sem Ísrael beitir nágranna sína. Ísraelsríki hefur á undanförnum mánuðum myrt tugi einstaklinga fyrir það eitt að mótmæla ástandinu.“
Félagið Ísland-Palestína hefur meðal annarra gagnrýnt Evrópu fyrir að hafa ekki staðið með mannréttindum þegar Ísrael stóð uppi sem sigurvegari keppninnar á laugardag. Þá hefur stjórnarmaður varastjórnar félagsins hvatt Íslendinga til að sniðganga keppnina.
Alls höfðu 20.685 skrifað undir áskorunina þegar fréttin var birt.